Fjögur hlutu áverka í sprengingu á dönsku bókasafni

Danska lögreglan segir að ekki sé á hreinu hver ástæða …
Danska lögreglan segir að ekki sé á hreinu hver ástæða sprengingarinnar sé. AFP

Þrjú börn og einn fullorðinn slösuðust fyrr í dag í bænum Tønder í suðurhluta Danmörku þegar sprenging varð á efnafræðisýningu í almenningsbókasafninu í bænum.

22 ára gamall háskólanemi, sem var sá sem framkvæmdi tilraunina þar sem sprengingin varð, slasaðist alvarlega og var fluttur á sjúkrahús. Hann er þó ekki í lífshættu.

Tvö af börnunum hlutu minniháttar áverka og kröfðust aðhlynningar á sjúkrahúsi en það þriðja þurfti ekki að fara á sjúkrahús samkvæmt lögreglu.

Sýndu mismunandi leiðir að sprengingum

Orsök sprengingarinnar liggur ekki fyrir en samkvæmt lögreglu voru „engin hættuleg efni á vettvangi“.

Að sögn fulltrúa Álaborgarháskóla sem stóð að sýningunni hafði ætlunin verið að „sýna mismunandi leiðir til að búa til sprengingar“.

Um 40 áhorfendur söfnuðust saman til að horfa á sýninguna á bókasafninu en í auglýsingu hafði komið fram að þar myndu háskólanemar sýna „hvernig efnafræði gegnir hlutverki í daglegu lífi okkar“.

Í auglýsingunni kom sömuleiðis fram að í sýningunni yrði hægt að sjá „spennandi tilraunir fullar af eldi, hvellum, litum, efnahvörfum og áhugaverðri þekkingu fyrir bæði unga sem aldna“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert