Óvíst hvaðan smitið barst

Sjúklingurinn hefur ekki verið í kringum smituð dýr.
Sjúklingurinn hefur ekki verið í kringum smituð dýr. Mbl.is/Getty images

Einstaklingur í Missouri-ríki varð á dögunum sá fyrsti í Bandaríkjunum til að greinast með fuglaflensu án þess að hafa verið í kringum sýkt dýr. Þetta kom fram í yfirlýsingu Bandarískra yfirvalda sem gefin var út í gær.

Sjúklingurinn, sem er fullorðinn og glímir við undirliggjandi sjúkdóma, var lagður inn á sjúkrahús 22. ágúst þar sem hann fékk veirueyðandi lyf gegn inflúensusýkingu. Hann hefur þegar jafnað sig og verið útskrifaður af spítalanum.

Þar sem flensutegund sjúklingsins virtist grunsamleg við fyrstu prófun var veirusýni sent til frekari rannsókna. Þær rannsóknir leiddu í ljós að um var að ræða H5-vírusinn sem einnig er þekktur sem fuglaflensa.

Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna segir að smitrakning hafi leitt í ljós að enginn í kringum sjúklinginn hafi smitast af veirunni. 

Óttast stökkbreytingu

Vísindamenn hafa síðustu misseri lýst yfir áhyggjum af vaxandi fjölda spendýra sem smitast hafa af fuglaflensu jafnvel þó að tilfelli í mönnum séu enn sjaldgæf.

Þeir óttast að mikill smithraði auðveldi stökkbreytingu á veirunni, sem gæti gert henni kleift að berast milli manna.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sagði í dag við fréttastofuna AFP að það væri „uppörvandi að sóttvarnaryfirvöld hafi greint þetta tilfelli, að sjúklingurinn hafi fengið veirueyðandi meðferð og að engin fleiri tilfelli hafi greinst meðal fólks í hans innsta hring“.

„Það er mikilvægt að rannsóknum á smiti sjúklingsins sé haldið áfram, eins og yfirvöld í landinu hafa gefið út, til að upplýsa frekar um hvernig fyrirbyggja megi smit og bregðast við þeim,“ sagði Dr. Maria Van Kerkhove, hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert