„Baráttan heldur áfram“

Delcy Rodríguez, varaforseti Venesúela, sagði yfirvöld hafa gefið grænt ljós …
Delcy Rodríguez, varaforseti Venesúela, sagði yfirvöld hafa gefið grænt ljós á brottflutning González úr landinu. AFP/Federico Parra

Ed­mundo Gonzá­lez, fram­bjóðandi Lýðræðis­banda­lags­ins, helsta stjórn­ar­and­stöðuflokks Nicholás Maduro, for­seta Venesúela, hefur heitið því að halda ótrauður áfram baráttunni í þágu lýðræðis og frelsis. 

„Baráttan heldur áfram,“ sagði González.

Gonzá­lez lenti á Spáni fyrr í dag þar sem hann hefur fengið pólitískt hæli eftir að yfirvöld í Venesúela gáfu út handtökuskipun á hendur honum. 

Skipunin var gefin út eftir að stjórnarandstaða landsins dró í efa niður­stöður kosn­ing­anna í júlí sem tryggðu Maduro for­seta­stól­inn að nýju þvert á út­göngu­spár og fylgisk­ann­an­ir.

Fundaði með sósíalistaflokknum

Fjölmiðlateymi González birti hljóðupptöku með skilaboðum hans fyrr í dag. Hann kvaðst vera fullviss þess að geta snúið aftur til heimalandsins. 

Hann sagði baráttuna í þágu frelsis og lýðræðis í Venesúela halda áfram á næstunni. 

Fljótlega eftir lendingu á Spáni sótti González fund Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, og flokksmanna Sósíalistaflokksins á Spáni.  

Sánchez sagði við tilefnið González vera hetju sem Spánn gæfi ekki upp á bátinn. 

Delcy Rodríguez, varaforseti Venesúela, sagði yfirvöld hafa gefið grænt ljós á brottflutning González úr landinu.

Tarek William Saab, ríkisaksóknari Venesúela, sagði að með flótta González úr landinu væri farsakenndu leikriti lokið. 

Saab sagði þó ekki hvort að rannsókn á meintum glæpum González væri lokið af hálfu ríkisins.  

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar.
Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka