Frambjóðendur hnífjafnir degi fyrir kappræður

Trump og Harris mætast í kappræðum á morgun.
Trump og Harris mætast í kappræðum á morgun. Samsett mynd/AFP/Getty Images/Bill Pugliano/Jim Watson

Forsetaframbjóðendurnir Donald Trump og Kamala Harris mælast með hnífjafnt fylgi í nýjum skoðanakönnunum sem birtust í fjölmiðlum vestanhafs í dag, degi áður en frambjóðendurnir mætast í fyrstu og mögulega einu kappræðunum.

Nýjustu kannanirnar staðfesta að Trump getur enn reitt sig á atkvæði frá næstum helmingi kjósenda í landinu þrátt fyrir að vera nú dæmdur glæpamaður og fyrir að hafa átt þátt í að hvetja til óeirðanna þegar Joe Biden Bandaríkjaforseti tók við völdum fyrir fjórum árum.

Harris sem steig inn í kosningabaráttuna með mjög litlum fyrirvara þegar Biden hætti við framboð sitt í júlí hefur tekist að sýna fram á að hún sé keppinautur sem ber að varast á mjög skömmum tíma en í embætti sínu sem varaforseti fór heldur lítið fyrir henni. 

Henni hefur þó ekki tekist að taka fram úr Trump svo um muni og því er alls óvíst hvernig kosningarnar fara í nóvember.

Munar einu prósentustigi

Í skoðanakönnun sem New York Times vann í samvinnu við Siena-háskólann kemur í ljós að Trump nýtur stuðnings 48% kjósenda í landinu á meðan Harris nýtur stuðnings 47% þeirra.

Það munar því einu prósentustigi á frambjóðendunum en það er vel innan skekkjumarka.

Það er þó ekki meirihluti atkvæða yfir landið sem tryggir frambjóðendum forsetastólinn heldur fjöldi kjörmanna sem þeir hreppa úr hverju ríki landsins.

Því ráðast niðurstöður kosninganna yfirleitt í örfáum sveifluríkjum á borð við Wisconsin, Michigan, Pennsylvaníu, Nevada, Georgíu, Norður-Karólínu og Arizona.

Í könnuninni leiddi Harris með litlu forskoti í Wisconsin, Michigan og Pennsylvaníu en frambjóðendurnir mældust jafnir í hinum fjórum ríkjunum.

Einu kappræðurnar

Könnun CBS og YouGov sem sömuleiðis kom út í dag sýnir að Harris leiði með einu prósentustigi í Michigan og Wisconsin og að frambjóðendurnir séu jafnir í Pennsylvaníu.

Því er óhætt að segja að kosningabaráttan gæti varla verið jafnari en það sem helst gæti haft áhrif á það eru kappræður milli frambjóðandanna sem haldnar verða á morgun á sjónvarpsstöðinni ABC.

Um er að ræða einu kappræðurnar sem eru skipulagðar milli frambjóðendanna og því ríkir mikil eftirvænting.

Í þeim verður Trump undir þrýstingi til að halda aftur að móðgunum og hótunum gegn mótframbjóðanda sínum en Harris mun þurfa að nota þá miklu athygli sem kappræðurnar fá til að tengjast kjósendum á hátt sem henni hefur ekki tekist sem varaforseti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert