Stjórnarandstæðingurinn flúinn til Spánar

Edmundo González, helsti andstæðingur forseta Venesúela Nicholás Maduro, hefur flúið …
Edmundo González, helsti andstæðingur forseta Venesúela Nicholás Maduro, hefur flúið land og hlotið pólitískt hæli á Spáni. AFP

Edmundo González, frambjóðandi Lýðræðis­banda­lags­ins, helsta stjórnarandstöðuflokks Nicholás Maduro forseta Venesúela, hefur flúið land og hlotið pólitískt hæli á Spáni. 

González var fluttur með herflugvél spænska hersins. 

BBC greinir frá. 

Yfirvöld í Venesúela gáfu út handtökuskipun á hendur González eftir að stjórnarandstaðan dró í efa niðurstöður kosninganna í júlí sem tryggðu Maduro forsetastólinn að nýju þvert á útgönguspár og fylgiskannanir.

Sagðir skipuleggja hryðjuverk

González hefur verið í felum í heimalandinu frá því að skipunin var gefin út. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, María Corina Machado, segir González  hafa verið tilneyddan að flýja land til þess að varðveita: „frelsi sitt, heiður og líf“.

Samkvæmt spænskum fjölmiðlum sást til vélar González á portúgölsku Asóreyjunum í Norður-Atlantshafi fyrr í dag.

Yfirvöld í Venesúela hafa umkringt sendiráð Argentínu í höfuðborg Venesúela Caracas, sem hýsir sex pólitíska andstæðinga Maduros.

Samkvæmt utanríkisráðuneyti Venesúela er verið að skipuleggja hryðjuverk í sendiráðinu. 

Stjórnarkreppa síðan í júlí 

Stjórnarkreppa hefur ríkt í Venesúela síðan í júlí þegar landskjörstjórn Venesúela lýsti Maduro yfir sigurvegara kosninganna.

Sterk sönnunargögn eru fyrir því að Maduro hafi átt við niðurstöðurnar en landskjörstjórnin er alfarið skipuð samflokksmönnum Maduros.

Stjórnarandstaðan hefur mótmælt niðurstöðunum harðlega og kveðst hafa sannanir fyrir því að González hefði unnið með miklum meirihluta atkvæða.

Hefur landskjörstjórnin ekki birt gögn í tengslum við kosningarnar þrátt fyrir ítrekuð áköll þjóðarinnar og alþjóðasamfélagsins.

Hafa fjölmargir þjóðarleiðtogar, þar á meðal frá Bandaríkjunum, Evrópuríkjum og nokkrum Suður-Ameríkuríkjum, dregið niðurstöðurnar í efa og neitað að viðurkenna Maduro sem réttmætan sigurvegara án þess að sundurliðun niðurstaðna kosninganna verði birt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka