Spænsk yfirvöld hafa gefið út að þau muni veita Edmundo Gonzalez Urrutia, leiðtoga stjórnarandstöðunar í Venesúela, pólitískt hæli en utanríkisráðherra Spánar, Jose Manuel Albares gaf út í morgun að Gonzalez Urrutia væri á leið til landsins.
Gonzalez Urrutia bauð sig fram gegn sitjandi forseta landsins, Nicolas Maduro, í kosningum fyrr í sumar en hann hefur haldið fram að sigur Maduro standist ekki skoðun.
Í kjölfarið var gefin út handtökuskipan á hendur Gonzalez Urrutia en hann hefur hunsað þrjú boð um að mæta fyrir saksóknarar og ber fyrir sig að það að mæta gæti kostað hann frelsi sitt.
Á dögunum leitaði Gonzalez Urrutia til spænska sendiráðsins í Caracas, höfuðborg Venesúela, og óskaði eftir pólitísku hæli í landinu en utanríkisráðherra Spánar hefur sagt að „augljóslega“ muni Spánn veita það.
Þá staðfesti hann fyrr í dag að Gonzalez Urrutia hefði flogið til Spánar í spænskri herflugvél og að Spánn væri „skuldbundinn pólitískum réttindum“ allra Venesúelabúa.
Þá höfðu yfirvöld í Venesúela gefið út að þau myndu ekki koma í veg fyrir ferðalag Gonzalez Urrutia.
Stjórnmálakreppa hefur verið í Venesúela síðan í júlí þegar yfirvöld lýstu yfir Maduro sigurvegari kosninganna.
Stjórnarandstaðan mótmælti því harðlega og sagðist hafa sannanir fyrir því að Gonzalez Urrutia hefði unnið með miklum meirihluta greiddra atvæða.
Fjölmargar þjóðir, þar á meðal Bandaríkin, Evrópusambandið og nokkur Suður-Ameríkuríki, hafa líkt og stjórnarandstaðan dregið niðurstöðurnar í efa og neitað að viðurkenna Maduro sem sigurvegara án þess að niðurstöður kosninganna verði sundurliðaðar.