Fellibylurinn Yagi herjar á Víetnam

Brúin, sem er í héraðinu Phu Tho, hrundi í dag …
Brúin, sem er í héraðinu Phu Tho, hrundi í dag eftir að hafa orðið fyrir fellibylnum. AFP

Brú hrundi í Víetnam í dag eftir að hafa orðið fyrir ofurfellibylnum Yagi sem hefur herjað á landið síðan á laugardag. Yfir 60 manns eru nú látnir í Víetnam vegna fellibylsins.

Á vef BBC má sjá upptöku af brúnni, sem staðsett er í héraðinu Phu Tho, hrynja. Að sögn varaforsætisráðherra landsins voru tíu bílar og tvö mótorhjól á brúnni þegar hún hrundi.

Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins kemur fram að leit hafi hafist að þrettán manns og enn sem komið er hafi þremur verið bjargað.

Á fimmta tug farist í aurskriðum og skyndiflóðum

Fellibylurinn hefur valdið gífurlegum usla á norðurhluta landsins yfir helgina. Hafa aurskriður og flóð orsakað rafmagnsleysi hjá milljónum manna.

Þá hafa að minnsta kosti 44 manns farist í aurskriðum og skyndiflóðum að sögn landbúnaðar- og dreifbýlisráðuneytisins í Víetnam.

Greint hefur verið frá því að fellibylurinn sé sá öflugasti í Asíu á þessu ári og hefur vindhraði náð allt að 203 km/klst.

Áður en fellibylurinn náði til Víetnams hafði hann valdið 24 dauðsföllum á suðurhluta Kína og á Filippseyjum.

Stormurinn hefur nú breyst í ákveðna lægð í norðurhluta Víetnam en yfirvöld þar í landi hafa varað við frekari eyðileggingu þegar Yagi mun færast í vesturátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert