Weinstein fluttur í skyndi á sjúkrahús

Harvey Weinstein.
Harvey Weinstein. AFP

Fyrrverandi kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein var í dag fluttur í skyndi á sjúkrahús þar sem hann fór í bráðaaðgerð á hjarta.

ABC-fréttastofan greinir frá.

Hafði Weinstein kvartað undan brjóstverkjum í fangelsinu á Rikers-eyju í New York þar sem hann afplánar nú dóma fyrir nauðgun og kynferðislega áreitni.

„Eins og við höfum margsinnis sagt áður, glímir herra Weinstein við fjölda heilsufarsvandamála sem þarfnast áframhaldandi meðferðar,“ sögðu fulltrúar Weinsteins, Craig Rothfeld og Juda Engelmayer, í yfirlýsingu í dag.

Kemur þar fram að Weinstein hafi verið fluttur á Bellevue-sjúkrahúsið í New York og þökkuðu fulltrúar hans þeim sem komu Weinstein á sjúkrahúsið fyrir að hafa brugðist fljótt við.

Weinstein var einnig fluttur á Bellevue-sjúkrahúsið í apríl.

Á að mæta fyrir rétt í vikunni

Wein­stein er 72 ára gam­all og var dæmd­ur sek­ur af dóm­stóli í New York fyr­ir nauðgun og kyn­ferðisof­beldi gegn leik­kon­unni Jessicu Mann árið 2013 og fyr­ir að hafa kyn­ferðis­lega áreitt aðstoðar­kon­una Mimi Haleyi árið 2006. Hann hlaut 23 ára dóm fyr­ir brot­in.

Í þessari viku á hann að mæta fyrir rétt í New York þar sem að saksóknarar hafa lagt fram sönnunargögn fyrir kviðdómi þar sem þeir vinna að því að tryggja nýja ákæru á hendur Weinstein vegna ákæru um kynferðisglæpi. Weinstein hefur neitað sök og sagt að samband sitt við konurnar hafi verið með samþykki.

Þá kom hann fyrir rétt nýlega í hjólastól og hefur farið fram á að vera áfram í gæsluvarðhaldi á Rikers-eyju þar sem hann hefur verið undir eftirliti lækna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert