Evrópudómstóllinn hefur dæmt bandaríska tæknifyrirtækið Apple til að greiða írskum stjórnvöldum 13 milljarða evra í ógreidda skatta, eða sem samsvarar um 2.000 milljörðum króna.
Þar með hefur endi verið bundinn á deilu sem hefur staðið yfir í átta ár.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sakað írsk stjórnvöld um að hafa veitt Apple ólöglegar skattaívilnanir árið 2016. Írar hafa aftur á móti ávallt haldið því fram að fyrirtækið þurfi ekki að standa skil á þessum gjöldum.
Fram kemur í umfjöllun BBC, að írska ríkisstjórnin muni una niðurstöðunni.
Talsmenn Apple lýsa yfir vonbrigðum og saka framkvæmdastjórn ESB um að reyna að breyta reglum afturvirkt.
Þá komst Evrópudómstóllinn einnig að niðurstöðu í máli sem tengist bandaríska tæknirisanum Google. En dómstóllinn hefur dæmt fyrirtækið til að greiða 2,4 milljarða evra sekt fyrir brot fyrir markaðsmisnotkun. Það jafngildir um 365 milljörðum kr.
Margrethe Vestager, yfirmaður samkeppnismála hjá ESB, fagnaði dómsniðurstöðunum. „Þetta er stór sigur fyrir evrópska ríkisborgara og réttlæti í skattamálum,“ sagði hún.