„Ég hef misst aleiguna, það er allt farið“

Phan Thi Tuyet með hundum sínum tveimur.
Phan Thi Tuyet með hundum sínum tveimur. AFP/Nhac Nguyen

Tæplega 60 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín í Yen Bai héraði í Víetnam vegna mikilla flóða í kjölfar þess að fellibylurinn Yagi reið yfir norðurhluta landsins um helgina.

Yfirvöld segja að næstum 18 þúsund heimili hafi farið undir vatn og milljónir manna eru án rafmagns.

AFP/Nhac Nguyen

Að minnsta kosti 82 eru látnir eftir hamfarirnar og 64 enn saknað. AFP-fréttastofan greinir frá.

Vindhraðinn náði um 149 km/klst og flóðin eru þau mestu sem orðið hafa meira en áratug. Í Hanoi, höfuðborg Víetnam, hefur vatnshæðin ekki orðið jafn mikil síðan 2008.

AFP/Nhac Nguyen

Tókst að bjarga tveimur hundum

Hin 50 ára Phan Thi Tuyet, sem býr í grennd við Red River sem rennur í gegnum borgina, segist aldrei hafa upplifað annað eins.

„Ég hef misst aleiguna, það er allt farið,“ sagði hún í samtali við AFP. Henni tókst þó að bjarga tveimur hundum sínum og komast um borð í bát sem flutti hana og fleiri íbúa burt frá flóðasvæðinu.

„Ég varð að flytja mig hærra upp til að bjarga okkar. Við gátum ekki tekið nein húsgögn með okkur, það er allt undir vatni núna.“

Flóðin eru þau mestu í yfir áratug.
Flóðin eru þau mestu í yfir áratug. AFP/Nhac Nguyen
AFP/Xuan Quang
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert