Stóra stundin er að renna upp í tengslum við forsetakosningar vestanhafs, en í nótt munu Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, og Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, mætast í sínum fyrstu og mögulega einu kappræðum.
Kappræðurnar verða klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma en ABC News heldur utan um þær og sjónvarpar. Einnig verður hægt að horfa á þær á YouTube-rás ABC News.
Það er mikið í húfi en Trump og Harris mælast hnífjöfn í könnunum og forskot Harris á Trump hefur dvínað eilítið á allra síðustu dögum. Þá hefur Trump aftur tekið fram úr Harris í kjörmannakerfinu samkvæmt RealClearPolitics.
Forsetakosningar í Bandaríkjunum fara fram 5. nóvember. Ekki er búið að semja um aðrar kappræður og því verður þetta mögulega eina tækifæri kjósenda til að sjá frambjóðendurna mætast.
ABC mun ekki gefa út hvaða mál verða helst rædd, en ætla má að meðal annars verði farið yfir efnahagsmál, útlendingamál, aðgengi kvenna að þungunarrofi, utanríkismál og jafnvel framgöngu Trumps í kjölfar þess að hann tapaði síðustu forsetakosningum.
Kappræðurnar munu standa yfir í 90 mínútur og verða tvö auglýsingahlé.