Þessu verður fylgst með í kappræðunum í nótt

Kapp­ræðurn­ar fara fram í Stjórn­ar­skrár­setr­inu í Penn­sylv­an­íu.
Kapp­ræðurn­ar fara fram í Stjórn­ar­skrár­setr­inu í Penn­sylv­an­íu. AFP/​Getty Ima­ges/​Kevin Dietsch

Í kappræðum Donalds Trumps og Kamölu Harris í nótt verður margt til að fylgjast með en báðir frambjóðendur munu reyna að sannfæra kjósendur um að hinn frambjóðandinn sé ekki rétta svarið fyrir Bandaríkin.

Trump og Harris munu reyna að slá hvort annað út af laginu og á sama tíma skilgreina sig sjálf sem besta frambjóðandann til að koma í gegn jákvæðum breytingum fyrir landið.

Í umfjöllun Wall Street Journal er búið að tiltaka nokkra hluti sem verður áhugavert að fylgjast með í kvöld.

Getur Trump haldið sér við efnið?

Áður en Biden forseti dró framboð sitt til baka létu ráðgjafar Trumps sér yfirleitt nægja að „leyfa Trump að vera Trump“.

En eftir að Harris kom fram í hans stað hafa ráðgjafar Trumps undirstrikað frekar við Trump að hann þurfi að halda sér við efnið, halda aftur af persónulegum móðgunum og einbeita sér að málefnunum.

Skot hans á andstæðinga eiga það til að vera mjög persónuleg og almennt eru kjósendur – sérstaklega óákveðnir kjósendur – ekki hrifnir af þeim. Í kvöld skiptir öllu máli fyrir Trump að vera agaður og verður áhugavert að sjá hvort honum takist það.

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi demókrata.
Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi demókrata. AFP/Jeff Kowalsky

Nær Harris að aðskilja sig frá Biden?

Harris hefur reynt að kynna sig fyrir Bandaríkjamönnum sem boðberi breytinga en ekki allir eru að kaupa það í ljósi þess að hún er sitjandi varaforseti Bandaríkjanna.

Ríkisstjórn Bidens er nokkuð óvinsæl og Trump hefur kennt Harris um misfarir þeirrar ríkisstjórnar, sérstaklega í útlendingamálum.

Yfirgnæfandi meirihluti Bandaríkjamanna telur að þjóðin sé á rangri leið og þá hjálpar ekki Harris að í nýrri könnun New York Times kemur í ljós að 55% svarenda telja að hún muni ekki koma með meiriháttar breytingar.

Í sömu könnun kom fram að 53% svarenda töldu Trump færa þjóðinni meiri háttar breytingar.

Tekst þeim að skýra sýn sína á embættið?

Bæði Trump og Harris hafa talað í breiðum strokum um stefnu þeirra fyrir Bandaríkin en mörgum þykir þó vanta smáatriðin.

Ráðgjafar Harris hafa ákveðið að gera grein fyrir nokkrum tillögum sem miða að því að lækka kostnað fyrir millistéttina í stað þess að leggja fram heildstæða framtíðarsýn fyrir annað kjörtímabil.

Í kosningabaráttu hennar er talið mikilvægara að tengja við kjósendur um framtíðarsýnina frekar en að tala um smáatriði sem geta gert hana berskjaldaða fyrir pólitískum árásum.

Það gerir það að verkum að ólíklegt er að hún muni fara í mikil smáatriði í kappræðunum, þrátt fyrir að skoðanakannanir sýni að sumir kjósendur viti enn ekki nógu mikið um afstöðu hennar til að mynda sér skoðun.

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og forsetaframbjóðandi repúblikana.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og forsetaframbjóðandi repúblikana. AFP/Mandel Ngan

Muni einbeita sér að misheppnaðri stefnu stjórnarinnar

Donald Trump bíður kannski ekki alveg sama áskorun í þessum efnum en hann getur alltaf bent á það hvernig hann stjórnaði fyrir fjórum árum.

Engu að síður telja sumir að hann hafi ekki gefið góðar skýringar á því hvernig hann ætlar að útfæra ákveðin loforð, eins og til dæmis um að binda enda á stríð Rússlands og Úkraínu á fyrsta degi sem forseti.

Kosningateymi Trumps hefur sagt að Trump muni einbeita sér að því sem hann telur vera misheppnaða stefnu Biden/Harris-stjórnarinnar í efnahags-, landamæra- og þjóðaröryggismálum.

Á landsfundi demókrata var demókrötum tíðrætt um Project 2025.
Á landsfundi demókrata var demókrötum tíðrætt um Project 2025. AFP/Mandel Ngan

Hvert reyna þau að stýra umræðunni?

Harris hefur verið tíðrætt um stefnu sína í efnahagsmálum, ógnanir við aðgengi kvenna að fóstureyðingum og einnig svokallað Project 2025. Í kappræðunum mun hún væntanlega einblína á efnahagsmálin sem eru mikilvægustu málin í kosningunum og á fóstureyðingarmálin.

Þá hafa demókratar reynt að tengja Project 2025 við Donald Trump. Project 2025 er eins konar óskalisti íhaldsmanna sem Heritage-hugveitan bjó til ásamt yfir hundrað grasrótarsamtökum fyrir nýtt kjörtímabil.

Fjöldi fólks sem tók þátt í að semja það plagg starfaði í Trump-ríkisstjórninni. Vert er að taka fram að Trump hefur ítrekað sagt að hann hafi aldrei lesið þetta 900 blaðsíðna plagg og sumt af því sem kallað er eftir í Project stangast á við það sem Trump hefur sjálfur talað fyrir.

Landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó.
Landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. AFP

Málið kannski heitara en árið 2016

Trump vill á sama tíma kenna Harris um landamæravandann sem margir Bandaríkjamenn telja mikilvægasta málið í komandi kosningum.

Metfjöldi ólöglegra innflytjenda á þessu kjörtímabili hefur valdið því að málið er mögulega heitara nú en árið 2016 þegar Trump vann Hillary Clinton.

Hann hefur einnig talað mikið um óðaverðbólgu og það sem hann kallar „Kamalanomics“ og hann heldur því fram að hún muni skaða fjárhag bandarískra heimila með „kommúnískri“ efnahagsstefnu.

Kapp­ræðurn­ar verða klukk­an eitt í nótt að ís­lensk­um tíma en ABC News held­ur utan um þær og sjón­varp­ar. Einnig verður hægt að horfa á þær á YouTu­be-rás ABC News.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert