32 ára fangelsi fyrir mannskætt rútuslys

Slysið er eitt það mannskæðasta í Ástralíu.
Slysið er eitt það mannskæðasta í Ástralíu.

Rútubílstjóri sem ber ábyrgð á einu mannskæðasta umferðarslysi í Ástralíu hefur verið dæmdur til 32 ára fangelsisvistar. Slysið átti sér stað í júní á síðasta ári, 10 létust og 25 slösuðust. BBC greinir frá.

Bílstjórinn, Brett Button, ók bæði of hratt miðað við aðstæður og var undir áhrifum slævandi lyfja, en slysið varð með þeim hætti að hann missti stjórn á bílnum í hringtorgi með þeim afleiðingum að hann valt. Við réttarhöldin sagðist hann hata sjálfan sig.

Ítrekað beðinn um að hægja ferðina

Button hafði tekið stóran skammt af verkjalyfinu Tramadol við krónískum höfuðverk sem hann glímdi við. Lyfið getur valdið sljóleika og sjóntruflunum en Button sagðist ekki hafa áttað sig á aukaverkununum.

Farþegar báru þó vitni um það við réttarhöldin að að þeir hefðu verið mjög óttaslegnir yfir aksturslagi hans og ítrekað beðið hann um að draga úr hraðanum. Skömmu síðar missti hann stjórn á rútunni. 

Átti erfitt að tjá sig með orðum

Við réttarhöldin baðst Button afsökunar og sagðist eiga erfitt með að tjá með orðum um eftirsjána og sorgina sem hann upplifði.

„Ég hef reynt að koma orðum að þessu, en hvernig biðst maður afsökunar á svo hræðilegu atviki sem hefur eyðilagt líf hundruð manna,” sagði Button.

„Ég lifi með þessu á hverjum degi og ég hata sjálfan mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert