Formaður grænlensku landstjórnarinnar, Múte B. Egede, og samgöngu- og innviðaráðherra Grænlands, Hans Peter Poulsen, hafa kallað forsvarsmenn alþjóðaflugvallarins í Nuuk á sinn fund til að ræða ástandið sem nú hefur komið upp á flugvellinum, þar sem ekkert millilandaflug er ekki heimilt.
Dönsk flugmálayfirvöld ákváðu 14. ágúst að aflýsa öllu millilandaflugi frá Nuuk, höfuðborg Grænlands, á meðan unnið væri að því að koma öryggismálum og eftirliti á flugvellinum í viðunandi horf. Nú er mánuður liðinn og ekkert hefur breyst.
Á Facebook-síðu flugvallarins kemur fram að stöðvunin verði í gildi fram í byrjun október, þegar fulltrúar frá samgöngustofu Danmerkur komi aftur í eftirlitsferð á völlinn.
„Við erum að vinna hörðum höndum og einbeitt að því að ná tökum á því sem upp á vantar svo að millilandaflug geti hafist að nýju og hörmum enn og aftur innilega þau óþægindi sem þetta hefur í för með sér fyrir viðskiptavini okkar og farþega,“ sagði Jens Lauridsen, forstjóri flugvallarins.
Í fréttatilkynningu þar sem greint var frá því að grænlensk yfirvöld hefðu boðað forsvarsmennina á sinn fund var haft eftir Múte B. Egede að núverandi aðstæður væru óviðunandi og að landstjórnin gerði ráð fyrir að meiri áhersla yrði lögð á að bæta úr vandanum.