Kraftaverkamörgæs fannst eftir tvær vikur á sundi

Pen-chen hafði aðeins lagt af en var annars hress þegar …
Pen-chen hafði aðeins lagt af en var annars hress þegar hún fannst. AFP/ Ryosuke Imai

Mörgæs sem strauk frá dýrahirði á sýningu í Aichi-héraði í Japan í seinni hluta ágústmánaðar kom öllum að óvörum í leitirnar heil á húfi um helgina eftir að hafa svamlað í sjónum tugi kílómetra í tvær vikur og veitt sér til matar. AFP-fréttastofan greinir frá.

Þeir sem þekkja til telja að um kraftaverk sé að ræða, þar sem mörgæsin Pen-chan, fæddist í dýragarði og hafði fram að strokinu aldrei synt í sjónum eða lært að bjarga sér ein í náttúrunni.

Dýrahirðirinn, Ryosuke Imai, sagði að hann hefði í mikilli örvæntingu strax sett saman teymi til að leita að Pen-chen en fellibylur og miklar rigningar settu strik í reikninginn og öftruðu leit.

Var orðinn úrkula vonar

Imai taldi að mörgæsin gæti aldrei lifað af í náttúrunni lengur en viku þar sem hana skorti hæfileika til að synda og færni til að veiða sér til matar.

En þann 8. september síðastliðinn fékk hann upplýsingar um að ófleygur fugl hefði sést hoppa og skoppa glaðlega í sjónum við strandlengjuna um 45 kílómetra frá staðnum sem Pen-chen hvarf.

„Ég hélt hún væri örmagna, en hún synti bara um eins og venjulega,“ sagði Imai í samtali við AFP eftir að dýrið var fangað.

„Þetta er alveg ótrúlegt. Sannkallað kraftaverk,“ sagði hann jafnframt. 

Pen-chen, sem er sex ára kvenkyns mörgæs, hefur væntanlega étið fisk og krabba sem hún veiddi sjálf og stoppað reglulega til að hvílast, að Imai telur. „Hún hefur aðeins lést, en líður annars mjög vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert