„Þau eru öll farin“

Margir sem bjuggu í þorpinu tengdust fjölskylduböndum.
Margir sem bjuggu í þorpinu tengdust fjölskylduböndum. AFP

Hoang Thi Bay var ein þeirra 63 sem komst undan og lifði af þegar stór aurskriða féll á þorpið hennar í norðurhluta Víetnam eftir að fellibylurinn Yagi gekk þar yfir með mikilli rigningu í kjölfarið. AFP-fréttastofan greinir frá.

Hún hélt sér dauðahaldi í steypta súlu sem hún náði að grípa í, á meðan leðja og grjót hreif með sér húsin allt í kringum hana.

Að minnsta kosti 30 létust og 65 er enn saknað í afskekkta fjallaþorpinu Lang Nu í Lao Cai héraði, eftir að aurskriðan hreif nánast allt þorpið með sér á þriðjudagsmorgun.

Bay ætlar ekki að búa áfram á svæðinu, segir það …
Bay ætlar ekki að búa áfram á svæðinu, segir það of hættulegt. AFP

Sá landið koma æðandi á móti sér

Bay vaknaði um sexleytið við hljóð sem líktist því að flugvél flygi í lágflugi yfir svæði, en hún áttaði sig fljótlega á því hvað var að gerast og náði að grípa í áðurnefnda súlu.

„Ég leit út um gluggann og sá hvar landið kom æðandi á móti mér. Ég hljóp út úr eldhúsinu og fann mér eitthvað til að halda í. Húsið okkar sem var úr timbri gjöreyðilagðist,“ sagði Bay í samtali við AFP.

Eiginmaður hennar hafði verið í heimsókn hjá ættingjum ofar í þorpinu en kom til baka um leið og hann gat til að reyna að bjarga henni.

„Mér tókst að flýja af sjálfsdáðum. Maðurinn minn og frændi hjálpuðu til við að bjarga nokkrum ættingjum undan rústunum og leðjunni. En ég tapaði öllu, heimili mínu og öllum eigum.“

AFP

Vill ekki búa áfram á svæðinu

Stór hluti þeirra sem bjó í þorpinu tengdist fjölskylduböndum og Bay var ein þeirra sem missti ættingja í hamförunum. „Fjórar fjölskyldur, þar á meðal börn, þau eru öll farin. Þau voru frændfólk okkar,“

Viðbragðsaðilar leita nú fólks í rústunum, en það þykir nánast útilokað að einhverjir finnist á lífi. Hinir látnu eru vafðir inn í klæði og þeir fluttir á bambusbörum á svæði þar sem ættingjar geta borið kennsl á þá. 

Aurskriðan jafnaði þorpið nánast við jörðu og Bay gerir ekki ráð fyrir að byggja sér aftur upp heimili á svæðinu. „Það er of hættulegt.“

AFP/STR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert