Þýsk yfirvöld svara Trump fullum hálsi

Trump hélt ýmsu fram í kappræðunum en sumt af því …
Trump hélt ýmsu fram í kappræðunum en sumt af því reyndist ósatt. AFP

Þýsk yfirvöld hafa svarað fullyrðingum Donalds Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda repúblikana, um orkuframleiðslu í landinu og nýttu tækifærið til að hæðast að öðrum staðhæfingum bandaríska forsetaframbjóðandans í kappræðum gærdagsins.

Undir lok kappræðna Donalds Trumps og Kamölu Harris í gærkvöldi gagnrýndi Trump Harris fyrir að vilja ekki notast við jarðefnaeldsneyti.

„Þýskaland reyndi það og innan árs voruð þau byrjuð að byggja venjuleg orkuver aftur,“ sagði Trump.

Orkukerfið í fullum gangi

Utanríkisráðuneyti Þýskalands svaraði þessu í færslu á samfélagsmiðlinum X í dag þar sem sagði:

„Hvort sem þér líkar það betur eða verr; orkukerfi Þýskalands er í fullri virkni og meira en 50% orkunnar eru endurvinnanleg. Og við erum að loka – ekki byggja – kola- og kjarnorkuverum. Kol munu heyra sögunni til í síðasta lagi árið 2028.“

Þýska ríkisstjórnin var gagnrýnd af loftslagsaðgerðasinnum fyrir tímabundna enduropnun kolaorkuvera árið 2022 og aukinn innflutning á jarðefnaeldsneyti. 

Síðan hefur þýskum stjórnvöldum tekist að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Á fyrri helmingi þessa árs var hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í Þýskalandi 61% á meðan 23% prósent rafmagns var framleitt með kolum.

Borða ekki ketti og hunda

Í færslunni á X nýtti utanríkisráðuneytið sömuleiðis tækifærið til að grínast með aðra staðhæfingu Trumps í kappræðum gærdagsins en þar hélt hann fram að innflytjendur frá Haítí í borginni Springfield steli og borði gæludýr nágranna sinna.

Lögregluyfirvöld í Springfield hafa hins vegar hafnað þessu.

„P.s: Við borðum heldur ekki ketti og hunda,“ sagði undir lok færslu þýska utanríkisráðuneytisins og var þá vísað ummælin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka