Trump kom fréttamönnum á óvart

Fréttamenn kepptust við að ná athygli fyrrverandi forsetans að kappræðum …
Fréttamenn kepptust við að ná athygli fyrrverandi forsetans að kappræðum loknum. AFP/Matthew Hatcher

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og forsetaframbjóðandi repúblikana, kom fréttamönnum á óvænt í gær er hann lét óvænt sjá sig í spunastofunni að kappræðum loknum. 

Spunastofa, eða það sem á ensku er kallað „spin room“, er svæði þar sem blaðamenn, stjórnmálaskýrendur, stjórnmálamenn og starfsmenn framboða og stjórnmálaflokka, geta komið saman til að ræða málin eftir hvers kyns viðburði, í þessu tilviki kappræður forsetaframbjóðendanna Kamölu Harris og Trumps.

Fréttamenn kepptust við að komast að frambjóðandanum og bera upp spurningu.

„Hvað um kjósendur sem eru svartir?“ sagði einn fréttamaðurinn sem reyndist hlutskarpastur í baráttunni um athygli fyrrverandi forsetans.

„Ég elska þá og þeir elska mig,“ var Trump fljótur að svara.

Trump kom fréttamönnum á óvart er hann mætti í spunastofuna.
Trump kom fréttamönnum á óvart er hann mætti í spunastofuna. AFP/Matthew Hatcher

„Mín besta frammistaða“

Margir fréttamenn kepptust þá við að spyrja frambjóðandann um mat hans á eigin frammistöðu í kappræðunum.

„Mér fannst þetta vera frábærar kappræður,“ sagði Trump og hélt áfram: „Ég held að þetta hafi verið mín besta frammistaða, reyndar, en ég lít nú ekki á þetta sem frammistöðu.“

Sjaldgæft að frambjóðandinn láti sjá sig í spunastofunni

Trump valsaði um herbergið með hóp fréttamanna á eftir sér. Eftir að hafa lokið við að svara nokkrum spurningum hvarf hann loks á ný.

„Það að hann skyldi láta sjá sig í blaðamannaherberginu og spunastofunni – við höfum ekki séð það gerast í fleiri ár,“ sagði Aaron Kall, stjórnandi kappræðna í Háskóla Michigan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert