„Við ætlum ekki að snúa aftur“

Frá kappræðunum í gær.
Frá kappræðunum í gær. AFP/Saul Loeb

„Donald Trump hafði betur gegn Kamölu Harris í stafræna peningakastinu fyrir kappræðurnar, en það er um það bil það eina sem hann vann þetta kvöld.“

Svo hljóðar upphaf fréttaskýringar bandaríska miðilsins CNN á frammistöðu forsetaframbjóðendanna í kappræðum þeirra sem haldnar voru á sjónvarpsstöðinni ABC í gærkvöldi.

Kappræðurnar stóðu yfir í næstum tvær klukkustundir og ræddu forsetaefnin m.a. þungunarrof, málefni innflytjenda, utanríkisstefnu Bandaríkjanna og efnahagsmál. 

Framboðsteymi Harris segir Harris hafa borið höfuð og herðar yfir Trump og hefur skorað á fyrrverandi forsetann í aðrar kappræður í október.

Trump og framboðsteymi hans telja hann aftur á móti hafa haft betur og hafa lýst yfir sigri. Sagðist hann aldrei hafa staðið sig jafnvel í kappræðum og þetta kvöld. 

Sagði Harris vera Marxista

Í kappræðunum mættust Harris og Trump í fyrsta sinn augliti til auglitis.

Trump hækkaði ítrekað róm sinn þegar hann spurði Harris m.a. út í málefni innflytjenda og hagkerfið. Lýsti hann Harris sem Marxista og sagði hana ábyrga fyrir málum sem hann telur ríkisstjórn Joe Bidens Bandaríkjaforseta hafa klúðrað.

Harris gaf lítið fyrir aðdróttanir fyrrverandi forsetans og setti upp svip þegar Trump gerði atlögu að henni. Kvaðst hún boða nýja tíma eftir forsetatíð Trumps. „Við ætlum ekki að snúa aftur,“ sagði hún.

Kamala Harris varaforseti Bandaríkjanna í kappræðunum í gær.
Kamala Harris varaforseti Bandaríkjanna í kappræðunum í gær. AFP/Jim Watson

Stefnan móðgandi fyrir konur

Eitt af stóru málum kvöldsins sem frambjóðendurnir tókust á um var þungunarrof.

Þrátt fyrir að Trump hefði beitt sér fyrir því að réttur kvenna til þungunarrofs á landsvísu yrði afnuminn kvaðst hann vilja að hvert og eitt ríki myndi setja sér sína eigin stefnu um málið.

Harris sagði Trump uppfullan af lygum og sagði stefnu hans móðgandi fyrir allar konur í Bandaríkjunum.

Ekki leið á löngu þar til umræðurnar beindust að málefnum innflytjenda. Trump sakaði Harris og ríkisstjórn Bidens ranglega um að hafa hleypt „milljónum manna úr fangelsum, geðdeildum og geðveikra hælum inn í landið“.

Harris svaraði fyrir sig með því að benda á að Trump hefði sjálfur verið sakfelldur og kallaði hann öfgafullan. Sagði hún það sorglegt að hann hefði ítrekað reynt að nota kynþátt til að sundra bandarísku þjóðinni.

Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP/Saul Loeb

Ísrael myndi hverfa ef Harris yrði forseti

Harris gerði lítið úr Trump þegar utanríkismálin voru til umræðu. Sagði hún einræðisherra hlæja að Trump og að Vladimír Pútín Rússlandsforseti myndi „borða hann í morgunmat“.

Trump svaraði fyrir sig með því að segja Harris hafa verið veiklunda þegar kæmi að átökum Ísraelshers og Palestínumanna á Gasa. Sagði hann Harris hata Ísrael og að ísraelska ríkið myndi líklega hverfa á tveimur vikum ef hún yrði kjörin forseti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka