Rokkaranum Jon Bon Jovi var hrósað af lögreglunni fyrir að hafa hjálpað konu sem stóð á brú í borginni Nashville í bandaríska ríkinu Tennessee á þriðjudagskvöld og gerði sig líklega til að stökkva þaðan niður.
Lögreglan í Nashville deildi myndskeiði sem sýnir þegar söngvari hljómsveitarinnar Bon Jovi og önnur kona sem voru stödd á John Seigenthaler-göngubrúnni þegar þau komu auga á konuna.
Bon Jovi, 62 ára, og konan sem var með honum nálguðust konuna varfærnislega, töluðu við hana og aðstoðuðu hana við að komast aftur til baka yfir brúarhandriðið, að því er BBC greindi frá.
„Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til að hjálpa til við að tryggja öryggi annarra,“ sagði John Drake hjá lögreglunni í Nashville í yfirlýsingu.
Bon Jovi virtist hafa verið staddur í Nashville til að taka upp tónlistarmyndband á brúnni, miðað við annað myndefni sem birtist á samfélagsmiðlum.
Embætti landlæknis bendir á að mikilvægt sé að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða kross-ins 1717, eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-samtakanna s. 552-2218. Píeta-samtökin bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.
Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendir landlæknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-samtökunum í síma 552-2218.