Repúblikanar freista þess að snúa öldungadeildinni

Baráttan um Bandaríkjaþing er æsispennandi.
Baráttan um Bandaríkjaþing er æsispennandi. AFP/Saul Loeb

Á sama tíma og allir fylgjast spenntir með forsetakosningunum vestanhafs þá má ekki gleyma því að Bandaríkjamenn kjósa einnig nýja þingmenn í bæði öldungadeildina og fulltrúadeildina.

Miðað við kannanir sem RealClearPolitics hefur tekið saman þá er baráttan um öldungadeildina æsispennandi í mörgum ríkjum en talsverðar líkur eru á því að repúblikanar muni ná meirihluta eftir kosningarnar.

100 þingmenn eru í öldungadeildinni, tveir frá hverju ríki, og demókratar eru nú með minnsta mögulega meirihluta. Það verður aftur á móti á brattann að sækja fyrir þá að halda meirihlutanum í komandi kosningum. Kosið verður um alls 34 þingsæti.

Ef kosningarnar fara eins og kannanir benda til í dag …
Ef kosningarnar fara eins og kannanir benda til í dag þá myndu repúblikanar bæta við sig tveimur þingsætum og ná tveggja manna meirihluta í öldungadeildinni. Skjáskot/Real Clear Politics

Cruz og Scott leiða í könnunum

Af þeim 49 þingmönnum sem repúblikanar eru með á þingi eru aðeins tveir í nokkuð samkeppnishæfum baráttum, samkvæmt RealClear Politics. Það myndu vera Ted Cruz í Texas-ríki og Rick Scott í Flórída-ríki.

Aftur á móti mælist Cruz með nokkuð afgerandi forskot á frambjóðanda demókrata og leiðir með sex prósentustigum og Rick Scott er með 4,3 prósentustiga forskot á frambjóðanda demókrata í Flórída.

Að því gefnu að þeir haldi sínu þá eru repúblikanar áfram með 49 þingmenn.

Ted Cruz er annar tveggja öldungadeildarþingmanna repúblikana frá Texas.
Ted Cruz er annar tveggja öldungadeildarþingmanna repúblikana frá Texas. AFP/Getty Images/Tierny L. Cross

Manchin mikill missir fyrir demókrata

Í Vestur-Virgínu hafa demókratar átt einn öldungadeildarþingmann, Joe Manchin, en ríkið er eitt það íhaldssamasta í landinu.

Hann hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram aftur og frambjóðandi repúblikana, Jim Justice, mun samkvæmt mælingum vinna afgerandi sigur.

Þar með eru repúblikanar komnir með 50 þingmenn en geta sótt enn fleiri því að þingmenn demókrata í fleiri ríkjum munu þurfa að verja sæti sín. 

Manchin hefur á tíðum verið á skjön við flokkslínuna en …
Manchin hefur á tíðum verið á skjön við flokkslínuna en þrátt fyrir það þá er mikill missir fyrir demókrata að hann skuli ekki bjóða sig fram. Nú munu þeir að öllum líkindum tapa þingsæti frá Vestur-Virginíu. AFP/Jeff Kowlasky

Ná líklega meirihlutanum með sigri í Montana

Í Montana-ríki á þingmaður demókrata, Jon Tester, í vök að verjast. Hann er með mótframboð frá repúblikananum Tim Sheehy sem mælist nú orðið með nokkuð gott forskot á Tester.

Sheehy er að meðaltali með 50% stuðning á sama tíma og Tester er með 44,8% stuðning.

Ef Sheehy vinnur eins og kannanir gera ráð fyrir þá fá repúblikanar meirihluta, að því gefnu að þeir haldi sætunum sínum og vinni í Vestur-Virginíu líka.

Þá er kosið um nokkur önnur sæti sem repúblikanar geta snúið. Þar má helst nefna í Arizona, Maryland, Michigan, Pennsylvaníu og Ohio.

Í öllum þessum ríkjum leiða frambjóðendur demókrata miðað við kannanir en þó má gera ráð fyrir því að í sumum af þessum ríkjum verði baráttan hnífjöfn.

Tim Sheehy, frambjóðandi repúblikana í Montana, er kominn með dágott …
Tim Sheehy, frambjóðandi repúblikana í Montana, er kominn með dágott forskot í könnunum. AFP/Kamil Krzaczynski

Stærsta sóknartækifærið í Ohio

Stærsta sóknartækifærið er líklega í Ohio-ríki þar sem þingmaður demókrata, Sherrod Brown, á í hörkubaráttu við frambjóðanda repúblikana, Bernie Moreno.

Brown mælist með 3,6 prósentustiga forskot að svo stöddu en það var meira fyrr í sumar. Þá má gera ráð fyrir því að Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, vinni ríkið nokkuð þægilega í forsetakosningunum og mun það hjálpa Moreno.

Áfram verður fjallað um baráttuna um öldungadeildina en á næstu dögum verður þó einnig farið yfir komandi kosningar í fulltrúadeildinni.

Sherrod Brown, öldungardeildarþingmaður demókrata frá Ohio, sækist eftir endurkjöri.
Sherrod Brown, öldungardeildarþingmaður demókrata frá Ohio, sækist eftir endurkjöri. AFP/Getty Images/Bonnie Cash
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert