Volódimír Selenskí Úkraínuforseti tilkynnti í morgun að 49 úkraínskir stríðsfangar hefðu snúið til baka til síns heima úr haldi Rússa og voru fréttamenn AFP-fréttastofunnar viðstaddir komu hópsins yfir landamæri Hvíta-Rússlands og Úkraínu.
Lét forsetinn þess ekki getið hvort um væri að ræða þátt Rússa í samkomulagi um stríðsfangaskipti sem nokkuð hefur verið um undanfarið, en AFP skrifar að fréttamennirnir hafi þó séð hóp rússneskra stríðsfanga stíga um borð í hópferðabifreið á úkraínskri grundu við landamærin skömmu áður en úkraínski hópurinn kom.
Sé um fangaskipti að ræða er það í annað skiptið síðan Úkraínumenn réðust óvænt á Kúrskhéraðið rússneska.
Að sögn Selenskí er þó ekki um hermenn eingöngu að ræða því almennir borgarar hafi verið í hópnum sem Rússar slepptu, þar á meðal „stúlka sem tekin var höndum þegar hún fór að vitja sjúks föður síns“, segir forsetinn. Þá hafi slökkviliðsmenn, lögreglumenn og landamæraverðir enn fremur verið í hópnum auk hermanna.
„Ég er loksins komin heim, ég trúi þessu ekki,“ sagði hin úkraínska Tamara Mírosníkóva, tæplega þrítugur stjórnandi brynvarinnar bifreiðar á vegum þjóðvarðaliðs landsins, þegar fréttamenn náðu af henni tali.
Tókst þeim enn fremur að ræða stuttlega við suma rússnesku fangana og sögðust einhverjir þeirra hafa verið teknir fastir í innrásinni í Kúrskhérað.