Hætt við sýningu á umdeildri heimildarmynd

Leikstjórinn Anastasia Trofimova.
Leikstjórinn Anastasia Trofimova. AFP

Skipuleggjendur Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Toronto greina frá því að búið sé að fresta öllum væntanlegum sýningum á umdeildri heimildarmynd „Russians at War“ eftir að þeim bárust hótanir.

„Okkur hefur verið gerð grein fyrir verulegri ógn við starfsemi hátíðarinnar og almannaöryggi og í ljósi þess getum við ekki haldið áfram eins og áætlað var. Þetta er fordæmalaus ráðstöfun,“ sögðu skipuleggjendur hátíðarinnar í yfirlýsingu.

Anastasia Trofimova kynnti fyrst Russians at War, Rússar í stríði, á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Í myndinni fylgir hún eftir rússneskri hersveit þegar hún er að austurhluta Úkraínu eftir að Rússar hófu innrás sína í Úkraínu í febrúar 2022.

Átti að frumsýna myndina í dag

Frumsýning á myndinni átti að fara fram í Toronto í Kanada í dag og síðan áttu að vera aukasýningar á myndinni á laugardag og sunnudag.

Bæði í Feneyjum og Toronto hefur það vakið reiði í úkraínskum menningar- og stjórnmálahópum gegn því sem margir telja vera mynd sem reynir að hvítþvo og réttlæta árás Rússa á nágranna sína.

Kanadíska ríkisútvarpið, TVO, sem hafði aðstoðað við að fjármagna heimildarmyndina, dró stuðning sinn við myndina til baka og sagði að hún yrði ekki sýnd.

Þá biðlaði kvikmyndastofnun Úkraínu til skipuleggjanda kvikmyndahátíðarinnar að hætta við myndina sem hún segir vera hættulegt tæki til að hagræða almenningsálitinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert