Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, vann kappræðurnar á móti Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana, nokkuð afgerandi ef marka má meðaltal þriggja kannana sem ABC tók saman.
Í nýjasta þætti Spursmála fór blaðamaðurinn Hermann Nökkvi Gunnarsson yfir kappræðurnar og hvaða áhrif þær kynnu að hafa.
Þá var einnig sýnt myndskeið frá AFP-fréttaveitunni, sem hafði tekið saman nokkur áhugaverð augnablik úr kappræðunum.
Hermann nefndi að demókratar væru sáttir við frammistöðu Harris en repúblikanar væru með mismunandi skoðanir.
Þó væru flestir repúblikanar á því máli að stjórnendur kappræðnanna hefðu ekki verið sanngjarnir gagnvart Trump, þar sem hann var leiðréttur fyrir að fara með fleipur en Harris ekki, þó að hún hafi einnig verið staðin að því að fara með fleipur.
ABC tók saman meðaltal þriggja kannana sem gerðar voru meðal kjósenda sem horfðu á kappræðurnar og sögðu 57% Harris hafa staðið sig betur en 34% sögðu Trump hafa staðið sig betur. 9% tóku ekki afstöðu.
Kannanir eru rétt byrjaðar að berast í kjölfar kappræðnanna. Samkvæmt RealClear Politics leiðir Trump í kjörmannakerfinu en Harris leiddi í því fyrir viku.
Rétt er að taka fram að þetta er byggt á könnunum sem gerðar voru fyrir kappræðurnar og því verður áhugavert að fara yfir stöðuna að viku liðinni.
Fáir kjósendur eru óákveðnir og er sigur í kappræðum ekki ávísun á sigur í kosningum. Á meðan beðið er eftir könnunum tekur óvissan við um það hver nákvæm áhrif kappræðnanna eru.
Þó má gera ráð fyrir því að Harris hafi styrkt stöðu sína eitthvað.
Þátturinn var sýndur hér á mbl.is fyrr í dag en upptökuna má nálgast í spilaranum hér að neðan, á Spotify og YouTube.