Þúsundir starfsmanna flugvélaframleiðandans Boeing í Bandaríkjunum samþykktu í gær að hefja verkfallsaðgerðir og hafna samningi sem kvað á um 25 prósenta launahækkun yfir fjögurra ára tímabil.
Greiddu 94,6% starfsmanna Boeing í Seattle atkvæði á móti samningnum auk þess sem 96% starfsmanna greiddu atkvæði með verkfallsaðgerðum.
Krafa hefur verið uppi um launahækkanir upp á 40% en leiðtogar verkalýðsfélaga sem eru í forsvari fyrir um 30 þúsund starfsmenn hafa hvatt fólk til að taka samningnum, þar sem hann sé sá besti sem náðst hefur í samningaviðræðum.
„Félagar okkar tóku skýra afstöðu í kvöld,“ sagði Jon Holden, forseti Alþjóðasamtaka vélvirkja og flugvirkja í umdæmi 751, í gær.
„Við leggjum niður störf á miðnætti.“
Verkfallið hefur áhrif á tvær stórar verksmiðjur en 33 þúsund starfsmenn munu leggja niður störf.
Talsmenn Boeing sögðu fyrirtækið reiðubúið að halda áfram samningaviðræðum þrátt fyrir þessa niðurstöðu.