Pútín: Grænt ljós þýddi stríð gegn Rússlandi

Vladimír Pútín er hann flutti ræðu í gær.
Vladimír Pútín er hann flutti ræðu í gær. AFP/Alexei Danichev

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, ræða saman í dag um hvort útvega skuli úkraínskum stjórnvöldum langdrægar eldflaugar sem hægt verður að beita gegn Rússland.

Þetta verður líklega síðasti fundur þeirra tveggja áður en forsetakosningar bresta á í Bandaríkjunum. Niðurstaða þeirra gæti orðið til þess að stefna Bandaríkjanna gagnvart Úkraínu breytist.

Þýðir stríð gegn Rússlandi

Úkraínumenn hafa þrýst á Bretland og Bandaríkin um að leyfa notkun vopnanna. Vladimír Pútín Rússlandsforseti varaði við því í gær að ef Úkraína fengi grænt ljós í þessum efnum myndi það þýða að NATO væri komið í stríð gegn Rússlandi.

„Þetta myndi þýða umtalsverða breytingu á eðli deilunnar,“ sagði Pútín í sjónvarpsviðtali í gær. „Þetta myndi þýða að aðildarríki NATO, Bandaríkin, Evrópulönd, eru komin í stríð gegn Rússlandi.“

Keir Starmer (til vinstri) og Joe Biden á ráðstefnu NATO …
Keir Starmer (til vinstri) og Joe Biden á ráðstefnu NATO í júlí síðastliðnum. AFP/Kevin Dietsch

Breskir fjölmiðlar greindu frá því að Biden væri tilbúinn til að leyfa Úkraínumönnum að nota breskar og franskar eldflaugar með aðstoð bandarískrar tækni en ekki bandarískar eldflaugar.

Spurður út í orð Pútíns sagði Starmer við breska fjölmiðla: „Rússar hófu þessi átök. Rússar réðust á ólöglegan hátt inn í Úkraínu. Rússar geta bundið enda á þessa deilu undir eins.“

Rússar sögðust í gær hafa endurheimt stórt svæði í vesturhluta Kúrsk-héraðs í landinu þar sem úkraínskar hersveitir hafa sótt fram undanfarnar vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert