Skemmdarverk hjá norska hernum

Skemmdarverk eru talin hafa verið framin hátt uppi í fjalli …
Skemmdarverk eru talin hafa verið framin hátt uppi í fjalli á Andøya þar sem tilraun norska hersins og bandamanna frá fjölda landa með truflunarbúnað stendur nú fyrir dyrum. Ljósmynd/Anders Rødningsby/Forsvarets forskningsinstitutt

Sundurskorinn ljósleiðarakapall við rannsóknarstöð norska hersins á Andøya í Nordland-fylki í Noregi hefur kveikt grunsemdir um að skemmdarverk hafi átt sér stað í aðdraganda heimsins stærstu tilraunar með truflunarbúnað fyrir gervihnattasamskipti, svokallaðan „jammer“.

Í tilrauninni taka níutíu stofnanir frá á þriðja tug landa þátt, en lega eyjarinnar Andøya, þar sem ný gervihnattaskotstöð stendur tilbúin er byggð var í samstarfi við Bandaríkjamenn, býður upp á gríðarmikið opið loftrými og há fjöll þar sem prófa má öflugan truflunarbúnað án þess að nokkur áhrif hafi á búnað í nærliggjandi byggðarlögum.

„Kapallinn er ónýtur. Margt bendir til þess að þarna hafi ekkert óhapp átt sér stað heldur verið gengið fram af ásetningi,“ segir Anders Rødningsby, rannsakandi við rannsóknarstöðina, Forsvarets forskningsinstitutt, í samtali við vefsíðuna Forsvarets Forum.

Rannsakendur norska hersins í rannsóknarstöðinni á Andøya í Nordland telja …
Rannsakendur norska hersins í rannsóknarstöðinni á Andøya í Nordland telja einsýnt að skemmdarverk hafi verið unnin. Ljósmynd/David Jensen/Forsvarets forskningsinstitutt

Truflunarmerki daglegt brauð

Tilgangur tilraunarinnar er að kanna hvernig tækjabúnaður hersins bregðist við truflunum sem beint er að honum í þeim tilgangi að hamla samskiptum, til dæmis við gervihnetti. Það var á sunnudagsmorgun sem sambandsleysis við truflunarbúnaðinn á fjallinu varð vart og þegar viðgerðarteymi kom á staðinn blasti sundurskorinn leiðarinn við en ekkert áhlaupaverk er að komast að honum.

Hefur leiðaranum nú verið skipt út og staðsetningunni breytt þannig að enn óhægara er að komast að þeim nýja og fer lögreglan í Nordland með rannsókn málsins.

Í Noregi er það fjarskiptaeftirlitsstofnunin Nasjonal kommunikasjonsmyndighet, Nkom, sem hefur eftirlit með fjarskiptamerkjum í og við landið. Líður ekki sá dagur að eftirlitsmenn Nkom verði ekki varir við truflunarmerki sem beint er að hvers kyns GPS-staðsetningarbúnaði og er ætlað að villa búnaðinum sýn með þeim afleiðingum að tækið telji sig statt allt annars staðar en það er – jafnvel á öðrum tíma.

Einfalt að trufla heilan flugvöll

Felst hernaðarleg þýðing slíkra truflana meðal annars í því að aðili, til dæmis her eða stofnun einhvers ríkis, beini truflunarmerkjum sínum að gervihnetti og annaðhvort sendi út breiðbandssuð, svokallað „white noise“, á sömu tíðni og hnötturinn notar eða sendi merki sem líkja eftir merkjum gervihnattarins og gefi rangar upplýsingar um staðsetningu einhvers sem hnötturinn miðar út – til dæmis skotmarks.

Horft yfir strönd eyjarinnar ofan af fjalli. Fyrstu norsku tilraunaeldflauginni, …
Horft yfir strönd eyjarinnar ofan af fjalli. Fyrstu norsku tilraunaeldflauginni, Ferdinand I, var skotið upp frá Andøya 18. ágúst 1962 og nú styttist í að fyrsta gervitunglinu verði skotið þaðan á braut um jörðu. Ljósmynd/David Jensen/Forsvarets forskningsinstitutt

Ekki þarf nema lítinn truflunarsendi til að gera heilum flugvöllum töluverða skráveifu og þekkjast þess dæmi í Noregi að björgunarþyrlur hafi ekki getað lent á flugvöllum vegna breiðbandssuðs, hljóðs sem sent er út með sama styrk á öllum hljóðtíðnum með þeim afleiðingum að siglingatæki greina ekki það merki sem þau þurfa fyrir hinum hljóðunum.

Er truflunarstarfsemin sístækkandi vandamál að sögn norskra fjarskiptayfirvalda og óx henni mjög fiskur um hrygg eftir innrás Rússa í Úkraínu en í Rússlandi er truflunarbúnaður mikið notaður og eru sem dæmi velflest venjuleg GSM-símstöðvamöstur búin búnaði sem gerir það að verkum að trufla má notkun allra, eða ákveðinna, farsíma sem tengjast viðkomandi stöð.

Norsk yfirvöld ættu að draga sem mestan lærdóm af notkun Rússa á truflunarbúnaði að sögn Tonje Arnesen, yfirrannsakanda rannsóknarstöðvar norska hersins, sem segir tilraunir, á borð við þá sem nú stendur yfir, mikilvægar til að finna og prófa veikleika búnaðar til staðarákvarðana og siglingatækni.

Forsvarets Forum

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert