Timberlake játar ölvunarakstur

Söngvarinn neitaði upphaflega sök í málinu.
Söngvarinn neitaði upphaflega sök í málinu. AFP/Michael Tran

Bandaríski tónlistarmaðurinn og leikarinn, Justin Timberlake, játaði fyrir dómi í dag að hafa keyrt undir áhrifum áfengis þegar hann var handtekinn í New York í júní fyrir ölvunarakstur. 

Söngvarinn var handtekinn 18. júní en hann hafði þá ekki virt stöðvunarskyldu og bíll hans rásaði milli akreina. Timberlake neitaði upphaflega sök í málinu og óskaði lögmaður hans eftir frávísun ákæru á hendur honum. 

Greiðir tæplega 100 þúsund íslenskra króna í sekt

Timberlake er gert að greiða 500 dollara sekt, eða sem nemur tæplega 70 þúsund íslenskra króna, auk 260 dollara aukagjalds, sem samsvarar um 35 þúsund íslenskra króna. 

Þá er honum skylt að sinna 25 klukkustundum í samfélagsþjónustu og að gefa frá sér tilkynningu um almannaöryggi fyrir utan dómshúsið:

„Jafnvel þó að þú hafir bara fengið þér einn drykk þá skaltu ekki setjast fyrir aftan stýrið. Ég hef gert mistök en ég vona að hver sá sem er að hlusta getur lært af þessum mistökum. Ég hef svo sannarlega gert það,“ sagði Timberlake fyrir utan dómshúsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert