Ellefu drepnir í árás á þriggja hæða hús

Palestínsk börn fyrir framan illa farnar byggingar í Beit Lahia …
Palestínsk börn fyrir framan illa farnar byggingar í Beit Lahia á norðurhluta Gasasvæðisins. AFP/Omar Al-Qattaa

Ellefu voru drepnir í árás Ísraela á hús í Gasaborg þar sem Palestínumenn höfðu leitað skjóls, að sögn stofnunar varnarmála á Gasasvæðinu.

„Við höfum fundið lík 11 píslarvotta, þar á meðal fjögurra barna og þriggja kvenna, eftir að ísraelskar stríðsþotur skutu á þriggja hæða hús Bustan-fjölskyldunnar,“ sagði talsmaður stofnunarinnar, Mahmund Bassal, við AFP.

Hann sagði húsið staðsett í austurhluta hverfisins Al-Tuffah í Gasaborg og að árásin hefði verið gerð klukkan 1 í nótt að staðartíma, eða klukkan 22 í gærkvöldi að íslenskum tíma.

„Þó nokkrar fjölskyldur höfðu leitað skjóls í húsinu en þangað var skotið flugskeyti án nokkurrar viðvörunar,“ sagði Bassal og bætti við að margir til viðbótar hefðu særst.

Ísraelsher sagði hersveitir sínar hafa gert árásina í nótt. „Ísraelsher skaut á yfirmann hryðjuverkahóps Hamas á svæðinu Daraj Tuffah, þar sem skipulögð og framkvæmd voru hryðjuverk gegn ísraelskum hermönnum og Ísraelsríki,“ sagði herinn í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert