Fjórir menn hafa farist í flóðum í Rúmeníu en úrhellisrigningar hafa geisað um Mið- og Austur-Evrópu síðustu daga. Mennirnir fundust í Galati-héraði í suðurhluta Rúmeníu.
Búist er við að Marcel Ciolacu forsætisráðherra heimsæki svæðið von bráðar.
Frá því á fimmtudag hafa miklar rigningar og vindur verið í hluta Austurríkis, Tékklandi, Ungverjalandi, Rúmeníu og Slóvakíu. Má þetta allt rekja til hvirfilbylsins Boris.