Marius Borg Høiby, sonur Mette Marit krónprinsessu Noregs, var handtekinn í gærkvöldi fyrir að brjóta nálgunarbann gegn fyrrverandi kærustu sinni. Hann var látinn laus fyrr í dag.
Norska lögreglan segir frá þessu.
Borg Høiby var úrskurðaður í gæsluvarðhald í byrjun síðasta mánaðar vegna gruns um að beita fyrrverandi kærustu sína ofbeldi.
Juliane Snekkestad var í sambandi við Høiby frá árinu 2018 til 2022 og steig fram í síðasta mánuði og greindi frá andlegu og líkamlegu ofbeldi sem hún varð fyrir af hendi Høiby.
Lögregluna grunar jafnframt að Høiby hafi brotið gegn þremur einstaklingum. Er hann grunaður um að hafa misnotað tvær konur og hótað einum manni.
Oyvind Bratlien, lögmaður Høiby, segir skjólstæðing sinn neita öllum ásökunum.
„Á þeim 17 árum sem ég hef starfað sem verjandi hef ég aldrei upplifað eða heyrt um handtöku á svo óljósum málefnalegum og lagalegum grundvelli,“ segir Bratlien í samtali við fjölmiðilinn NRK.
Mette-Marit átti Høiby með öðrum manni áður en hún kynntist Hákoni krónprinsi og gegnir hann því engum opinberum skyldum.