Sprengjuhótanir í skólum vegna falskra ummæla

Donald Trump á blaðamannafundi í gær.
Donald Trump á blaðamannafundi í gær. AFP/Mario Tama

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, segist vilja flytja fjölda farandfólks á brott frá borginni Springfield í bandaríska ríkinu Ohio.

„Við ætlum að byrja á Springfield,“ sagði Trump í gær og bætti við að innflytjendur hefðu eyðilagt borgina.

Yfirmenn í Springfield segja að tilhæfulausar staðhæfingar hans um að innflytjendur frá Haítí sem búa í bænum borði gæludýr hafi haft afar slæm áhrif á samfélagið og leitt til ofbeldisfullra hótana sem hafa orðið til þess að loka hefur þurft skólum.

Sjálfboðaliðinn Hope Kaufman kennir nemendum frá Haítí ensku í Springfield. …
Sjálfboðaliðinn Hope Kaufman kennir nemendum frá Haítí ensku í Springfield. Rýma hefur þurft skóla í borginni að undanförnu. AFP/Roberto Schmidt

Joe Biden Bandaríkjaforseti hvatti til stillingar í gær og sagði gagnrýni í garð fólks frá Haítí vera „einfaldlega ranga“.

„Þessu verður að linna, það sem hann er að gera. Því verður að linna,“ sagði hann um ummæli Trumps, að þvi er BBC greindi frá.

Trump lét ummælin falla eftir næstum vikulangar falskar staðhæfingar sem höfðu verið uppi um að farandfólk í Springfield drepi gæludýr.

„Þau eru að borða hundana, fólkið sem kemur þangað það borðar kettina,“ sagði hann um innflytjendurna frá Haítí í borginni, í kappræðum við demókratann Kamölu Harris. 

Lögreglumaður og lögregluhundur á leið inn í bíl eftir að …
Lögreglumaður og lögregluhundur á leið inn í bíl eftir að ráðhúsinu barst sprengjuhótun. AFP/Roberto Schmidt

Lögreglustjórinn og borgarstjórinn í Springfield ásamt ríkisstjóra Ohio, Mike DeWine, hafa allir vísað þessum ummælum á bug og segja þau röng.

Í gær þurfti að rýma þrjá skóla í borginni vegna sprengjuhótana. Að minnsta kosti ein hótunin hafði að geyma niðrandi ummæli um fólk frá Haítí, að sögn borgarstjórans Bob Rue.

Áður hafði þurft að rýma ráðhús borgarinnar og þó nokkrar aðrar byggingar, þar á meðal einn skóla, vegna hótana.

Farandfólkið í Springfield, sem er aðallega frá Haítí, má dvelja löglega í Bandaríkjunum samkvæmt sérstöku verkefni á vegum ríkisins fyrir íbúa Haítí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert