Einn drukknaði í Póllandi og austurrískur slökkviliðsmaður lét lífið í flóðum eftir miklar rigningar vegna óveðursins sem herjar á Mið- og Austur-Evrópu og nefnt hefur verið Boris.
Þar að auki er fjögurra saknað í Tékklandi, en í gær var tilkynnt um að fjórir hefðu látið lífið í Rúmeníu. Í dag var tilkynnt um fimmta andlátið vegna óveðursins í Rúmeníu.
Þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna óveðursins.
Frá því á fimmtudag hefur verið óvenju hvasst í Austurríki, Tékklandi, Ungverjalandi, Rúmeníu og Slóvakíu og úrkoma óvenju mikil.
Hundruðum manna hefur verið bjargað í 19 landshlutum í Rúmeníu, að sögn björgunaraðila þar í landi.
„Við erum með fyrsta staðfesta dauðsfallið af völdum drukknunar, í Klodzko-héraði,“ sagði Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, í morgun.
Um 1.600 manns hafa verið fluttir á brott í Klodzko og pólsk yfirvöld hafa kallað til herinn til að styðja við slökkviliðsmenn á vettvangi.
Yfirvöld lokuðu Golkowice-landamærunum við Tékkland eftir að fljót flæddi yfir bakka sína á laugardag.
Þar að auki var nokkrum vegum lokað og lestarferðir sem tengja bæina Prudnik og Nysa stöðvarnar verið felldar niður.
Lögreglan í Tékklandi greindi frá því í morgun að fjögurra væri saknað.
Þrír voru í bíl sem skolaðist í á í bænum Lipova-Lazne í norðausturhluta landsins og annars er saknað eftir að hafa horfið í flóðum í suðausturhluta landsins.
Stífla í suðurhluta landsins brast og flæddi úr henni yfir bæi og þorp.
Áfram er spáð mikilli rigningu fram á mánudag í Tékklandi og Póllandi.
Í sambandsríkinu Neðra-Austurríki í norðausturhluta Austurríkis lést slökkviliðsmaður í flóðum. Héraðið hefur verið flokkað sem náttúruhamfarasvæði.
Þar svaraði neyðarlínan 5.000 aðstoðarbeiðnum en flóð höfðu lokað marga íbúa inni á heimilum sínum.
Snjóskaflar hafa náð allt að metra hæð í Tírol-sambandsríkinu í Austurríki. Telst það til fregna á þessum árstíma en fyrir aðeins viku síðan mældist 30 stiga hiti í héraðinu.
Lestarsamgöngur voru felldar niður í austurhluta landsins í morgun og nokkrum neðanjarðarlestarleiðum var lokað í höfuðborginni Vín.
Þar hafa slökkviliðsmenn þurft að sinna um 150 útköllum við frá því á föstudag við að ryðja braki af vegum og til að dæla vatni úr kjöllurum.
Þá hefur neyðarástandi verið lýst yfir í höfuðborginni Bratislava í Slóvakíu.