Myndskeið: „Staðan er virkilega hættuleg“

Stormurinn Boris herjar á Mið- og Austur-Evrópu með úrhellisrigningu og miklu hvassviðri. Rigningin hefur flætt yfir götur og eru heilu hverfin undir vatnsyfirborði.

Lokað hefur verið fyrir almenningssamgöngur og þurft að slökkva á rafmagni víða. Sjö hafa látist af völdum óveðursins og þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Sumir afþakka rýmingu

Forsætisráðherra Tékklands, Petr Fiala, hefur biðlað til almennings um að hlýða tilmælum yfirvalda um að rýma heimili sín sé til þess mælst.

„Staðan er virkilega hættuleg og hana má ekki vanmeta. Við erum að lenda í tilfellum þar sem fólk neitar að rýma heimili sín,“ sagði forsætisráðherrann í viðtali við tékkneska miðilinn Blesk.

Eyðileggingin algjör

Í bænum Jeseník í Tékklandi búa um 10.000 manns en vatnsyfirborð í á bæjarins er svo hátt að það flæddi um götur bæjarins. Í morgun hækkaði vatnsyfirborðið svo mikið að vatn flæddi yfir bæinn á innan við hálftíma, að sögn bæjarstjórans, Zdeňka Blišťanová.

Sagði bæjarstjórinn flóðin minna einna helst á heimsendi og að kraftur vatnsins væri slíkur að eyðileggingin væri algjör.

Í morgun voru um 260.000 tékknesk heimili án rafmagns, í kvöld var sú tala komin niður í um 135.000 heimili. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert