SpaceX geimfar Polaris Dawn-leiðangursins lenti ásamt farþegum í sjónum við strönd Flórídaríkis í Bandaríkjunum klukkan 7.37 í morgun að íslenskum tíma.
Sjá mátti geimfarið, sem nefnt hefur verið Drekinn (e. the Dragon), lenda í sjónum á vefmyndavélum SpaceX í morgun.
Er nú björgunarteymi á leiðinni að sækja geimfaranna og Drekann.
Geimfari SpaceX-geimferðafyrirtækisins var skotið á loft á þriðjudaginn frá Kennedy Space Center í Flórídaríki.
Náði það merkum áfanga á miðvikudaginn, en þá fór áhöfn á vegum fyrirtækisins í fyrstu geimgönguna sem „einkaaðilar“ hafa farið í, þ.e.a.s. fólk sem ekki var sérþjálfað sem geimfarar á vegum geimferðaþjóðar.
Geimfarið náði 1.400 km fjarlægð frá jörðu, sem er um þrisvar sinnum lengra en þar sem Alþjóðlega geimstöðin er stödd. Þetta er lengri vegalengd en nokkurt mannað geimfar hefur náð í yfir hálfa öld.
Um borð í geimfari SpaceX eru fjórir Bandaríkjamenn. Leiðtogi hópsins er auðjöfurinn Jared Isaacman, 41 árs forstjóri fjármálafyrirtækisins Shift4 Payments, sem hann stofnaði í kjallaranum heima hjá sér þegar hann var 16 ára.
Einnig eru með í för tveir starfsmenn SpaceX, þær Sarah Gillis (30 ára) og Anna Menon (38 ára).
Í geimfarinu er einnig flugmaðurinn Scott Poteet. Hann er fyrrverandi liðsmaður í bandaríska flughernum og náinn vinur Isaacman.
Polaris Dawn er fyrsta ferðin af þremur sem í Polaris-verkefninu, sem er samstarfsverkefni Isaacman og SpaceX.
Sagt hefur verið að Isaacman hafi eytt 200 milljónum dollara af sínu eigin fé til þess að fjármagna geimferðina.