Sá grunaði vildi berjast fyrir Úkraínu

Skjáskot úr myndskeiði AFP-fréttaveitunnar þar sem Routh var viðstaddur samstöðumótmæli …
Skjáskot úr myndskeiði AFP-fréttaveitunnar þar sem Routh var viðstaddur samstöðumótmæli vegna stríðsins í Úkraínu árið 2022. AFP

Karlmaðurinn sem er í haldi, grunaður um að hafa sýnt Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta og forsetaframbjóðanda repúblikana, banatilræði í gær heitir Ryan Wesley Routh.

Frá þessu greina fjölmiðlar vestan hafs.

Í umfjöllun CNN segir að Routh sé 58 ára gamall og sé eigandi lítils verktakafyrirtækis á Havaí. Hann hefur verið ófeiminn við að gagnrýna Trump á samfélagsmiðlum. 

Þegar Trump var sýnt banatilræði í júlí hvatti Routh Joe Biden Bandaríkjaforseta og Kamölu Harris, varaforseta og nú forsetaframbjóðanda demókrata, til að heimsækja þá sem særðust í árásinni. „Trump myndi aldrei gera neitt,“ skrifaði hann.

Heimili hins grunaða.
Heimili hins grunaða. AFP

Áður komist í kast við lögin

Á LinkedIn-síðu Routh segir að hann hafi stofnað fyrirtækið Camp Box Honolulu á Havaí árið 2018. Byggir fyrirtækið geymsluhýsi og smáhýsi.

Routh hefur áður komist í kast við lögin. Árið 2002 var hann til að mynda stöðvaður af lögreglu og er hann sagður hafa lagt hönd á skotvopn. Þá er hann einnig sakaður um að hafa ekki borgað skattana sína á réttum tíma.

Fjallaði um alþjóðamál

Routh hefur lýst stuðningi við Úkraínu í fjölda tísta á samfélagsmiðlinum X árið 2022. Kvaðst hann myndu vera reiðubúinn að deyja í stríðinu. „Við þurfum að jafna Kreml við jörðu,“ sagði í einu tístinu. Heimsótti hann Úkraínu sama ár.

Í bók sem Routh gaf sjálfur út fjallaði hann um ýmis alþjóðamál, þar á meðal um stjórnmál í Afganistan, Taívan og Norður-Kóreu. Kom þar fram að hann hefði reynt að skrá sig í úkraínska herinn en að honum hefði verið snúið við á landamærum Póllands og Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert