Rússar fjölga til muna í herliði sínu

Vladimír Pútín á fundi með herráði sínu.
Vladimír Pútín á fundi með herráði sínu. AFP

Rússnesk stjórnvöld hafa ákveðið að stækka her sinn svo að í honum verði starfandi 1,5 milljónir hermanna.

Er þetta gert sökum „ógna“ við landamæri ríkisins og aukins fjandskapar af hálfu Vesturlanda, að því er fram kemur í tilkynningu Kremlar í dag.

„Þessi ráðstöfun stafar af fjölda ógna sem steðja að ríkinu okkar við landamærin. Vegna gífurlega fjandsamlegra aðstæðna á vesturlandamærunum og óstöðugleika á austurlandamærunum,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar, við blaðamenn í dag.

Þriðja skiptið sem Pútín fyrirskipar fjölgun

Forsetinn Vladimír Pútín hefur fyrirskipað að starfandi hermönnum skuli fjölgað um 180 þúsund svo að þeir verði 1,5 milljónir talsins.

Með því verði her Rússlands annar stærsti her heimsins, ef farið er eftir fjölda hermanna, að sögn rússneskra fjölmiðla.

Þetta er í þriðja skiptið sem Pútín fyrirskipar fjölgun hermanna frá því Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022.

Að sögn rússneskra yfirvalda eru tæplega 700 þúsund hermenn við víglínurnar í Úkraínu.

Talið er að tugir þúsunda hafi látist eða særst á báðum hliðum víglínunnar frá upphafi stríðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert