Fleiri en tuttugu manns hafa látið lífið í flóðunum sem óveðrið Boris hafði í för með sér fyrir Mið-Evrópu.
Óvenju mikil úrkoma og hvassviðri hefur dunið á stórum hlutum Austurríkis, Tékklands, Ungverjalands, Póllands, Rúmeníu og Slóvakíu frá því á föstudag.
Lögregla fann í dag lík 81 árs gamla konu í Neðra-Austurríki þar sem flætt hafði inn í heimili hennar. Neðra-Austurríki er það sambandsríki sem verst hefur orðið úti í landinu.
Þar hafa fimm látist af þeim 21 sem fundist hafa látnir í ríkjunum.
Veðrinu hefur nú slotað að nokkru leyti en jörðin er víða gegnsósa og ár flæða enn yfir bakka sína. Yfirvöld biðja því íbúa að vera áfram á varðbergi.
„Við erum að komast að raun um stærð hamfaranna,“ sagði ríkisstjóri Neðra-Austurríkis, Johanna Mikl-Leitner, á blaðamannafundi í dag.
Enn eru 60 þúsund heimili í Tékklandi án rafmagns, aðallega í norðausturhluta landsins. Þá voru 500 manns fluttir á brott af heimilum sínum í gærkvöldi, börn þar á meðal.
Sérfræðingar hafa ítrekað sagt loftslagsbreytingar af völdum manna hafa aukið tíðni og umfang veðurfyrirbrigða á borð við ofsaregn og flóð.
Andreas von Weissenberg, aðgerðastjóri Rauða krossins í Mið-Evrópu, segir að von sé á rannsóknum til að ákvarða hvort loftslagsbreytingar tengist þessum veðurofsa á komandi mánuðum.