Borgarstjóri Stavanger sakaður um fjárdrátt

Sissel Knutsen Hegdal hefur sagt af sér sem borgarstjóri.
Sissel Knutsen Hegdal hefur sagt af sér sem borgarstjóri. Ljósmynd/Heimasíða Stavanger

Sissel Knutsen Hegdal hefur tilkynnt um afsögn sem borgarstjóri Stavanger í Noregi. Lögreglan rannsakar nú mögulegan fjárdrátt af hennar hálfu.

NRK greinir frá.

Málið varðar kortagreiðslur hennar með korti borgarstjórnarflokks Hægri­flokk­s Nor­egs, Høyre. Lögreglan rannsakar hvort hún hafi misnotað fjármuni flokksins í eigin þágu.

265 þúsund krónur alls

„Ég get staðfest að lögreglan hefur tilkynnt okkur að hún muni skoða reikningana nánar eftir tvær kvöldverðarsamkomur sem voru haldnar annars vegar á laugardag fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í fyrra og hins vegar á kosninganóttinni sjálfri,“ segir lögmaður Hegdal, Halvard Helle.

Þá er einnig rannsökuð af hálfu lögreglunnar úttekt af kortinu upp á fimm þúsund norskar krónur, tæplega 65 þúsund krónur, í seðlum og gjafakaup fyrir 3.900 norskar krónur, 50 þúsund krónur.

NRK greinir frá því að alls sé um að ræða fjárhæð sem nemur 20.400 norskum krónum, eða um 265 þúsund krónum. 

4. september tilkynnti Sissel af hún myndi segja af sér sem borgarstjóri og er hún nú í veikindaleyfi. Starfandi borgarstjóri í Stavanger er Henrik Halleland.

Segja fjárdrátt ekki sannaðan

Sissel Knutsen Hegdal segir í tilkynningu að hún hlakki til að fá tækifæri til að skýra mál sitt fyrir lögreglunni. Hún muni hitta lögregluna við fyrsta tækifæri og segir því fyrr því betra.

Halvard Helle segir að Sissel hafi ekki viljandi ráðstafað fjármunum sem myndu skaða flokkinn.

„Við getum heldur ekki fundið sannanir fyrir því að þessi fjögur tilvik geti talist fjárdráttur í skilningi hegningarlaga,“ sagði Helle í samtali við NRK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert