Flaug með vændiskonur í svallveislur

Hipphopp-mógúll, smellasmiður, frumkvöðull... eða skrímsli?

Bandaríska rapparanum Sean „Diddy“ Combs hefur verið lýst á hina ýmsu vegu að undanförnu, en hann hefur einnig notast við mörg sviðsnöfn svo sem Puffy, P. Diddy, Puff Daddy, Love, Brother Love.

En nú er hann sakborningur þar sem hann var á mánudag handtekinn í New York og ákærður fyrir fjárkúgun og kynlífsþrælkun.

Í ákær­unni á hend­ur honum seg­ir að Combs hafi „mis­notað, hótað og kúgað kon­ur og aðra í kring­um sig til að upp­fylla kyn­ferðis­leg­ar lystir sín­ar, verja orðspor sitt og hylma yfir framgöngu sína“.

Þá er hann sakaður um að hafa rekið „glæpa­veldi“ sem stóð meðal ann­ars að mann­ráni, íkveikj­um, nauðung­ar­vinnu og mútum. Combs, sem er 54 ára, kom fyr­ir dóm­ara í gær en þar kvaðst hann vera saklaus og fór fram á að fá að vera laus gegn trygg­ingu. Dómarinn neitaði beiðninni.

Hvað vitum við um ásakanirnar?

Alls hafa um átta konur og tveir karlar sakað rapparann um ofbeldi frá því í nóvember í fyrra.

Í raun hófust lagalegar deilur Combs í nóvember 2023 þegar fyrrverandi kærasta hans, söngkonan Casandra „Cassie“ Ventura kærði hann fyrir ofbeldi en aðeins degi síðar náðist samkomulag á milli þeirra. Í maí fór síðan myndband frá 2016 í dreifingu þar sem Combs sést ganga í skrokk Ventura. Renndi myndskeiðið stoðum undir ásakanir Ventura.

Stuttu eftir að Ventura steig fram í nóvember stigu tvær aðrar konur fram og sökuðu Combs um ofbeldi, önnur þeirra sagði rapparann hafa kyrkt sig þar til hún féll í yfirlið. Rapparinn neitaði þeim ásökunum, að því er BBC greinir frá.

Í desember kom upp annað dómsmál þar sem kona sagðist hafa verið hneppt í kynlífsmansal af Combs og tveimur öðrum þegar hún var aðeins 17 ára.

Í febrúar 2024 litu nýjar ásakanir dagsins ljós þar sem Rodney Jones, fyrrverandi framleiðandi fyrir Combs, hélt því fram í kæru á hendur rapparanum að Combs hefði komið fram við sig á óviðeigandi hátt og reynt að „tæla“ sig til að eiga kynmök við annað fólk. Combs neitar einnig þeim ásökunum.

Í mars síðastliðnum gekkst lögreglan í umfangsmikla rannsókn á tveimur heimilum Combs, annars vegar í Kaliforníu og hins vegar í Flórída. Þá var Combs einnig stöðvaður af lögreglunni á flugvelli í Miami í Flórída og öll raftæki voru tekin af honum.

Hann var svo loks handtekinn á mánudag í New York.

Svallveislur og grunsamlega mikið af sleipiefni

Í dómskjölunum kemur einnig fram að Combs hafi oft á tíðum haldið kynlífspartí sem hann kallaði „freak offs“, að sögn Wall Street Journal.

Rapparinn er sagður hafa skipulagt viðburðina og m.a. flogið með kynlífsverkafólk um víða veröld. Þar hafi hann stundað sjálfsfróun og gefið konum eiturlyf á borð við ketamín og alsælu (e-töflur).

Combs greiddi vændiskörlum fyrir vinnuna en ekki konum, að sögn saksóknara. Heldur hafi hann þvingað vændiskonurnar til þess að taka þátt, þar sem hann hefði oft tælt þær til sín með því að lofa þeim rómantísku sambandi en síðan gert þær fjárhagslega háðar sér.

Starfsmenn Combs hafi þá oft bókað hótelherbergi sérstaklega fyrir téða viðburði og birgt herbergin upp með sleipiefni og aukasængurveri.

Ákæruvaldið mætt í svefnherbergið

Til að styðja mál sitt bendir saksóknari á að Combs hafi m.a. þurft að greiða 46 þúsund bandaríkjadali vegna skemmda sem hann olli á hótelherbergi í Manhattan árið 2012.

Auk þess hafi allt að þúsund flöskur af sleipiefni og barnaolíu fundist á heimilum Combs.

Lögmaður rapparans, Marc Agnifilo, segir að skjólstæðingur sinn hafi ekki gerst sekur um mansal.

„Er það mansal? Nei, ekki ef allir vilja vera þarna,“ hefur WSJ eftir Agnifilo. „Við erum ekki í betri stöðu ef ákæruvaldið mætir inn í svefnherbergið til okkar. Og það er það sem er sem að gerast hér.“

Hátt fall úr efstu þrepum bandarískrar elítu

Litið er á málið sem áfall fyrir stórkostlegan tónlistar- og viðskiptaferil Combs.

Rapparinn var geysivinsæll á 10. áratugnum og er það í raun enn með tæplega 10 milljónir mánaðarlegra hlustenda samkvæmt Spotify.

Vinsælasta lagið hans „I'll Be Missing You“ frá 1997 sem hann flytur ásamt rytmablússtjörnunni Faith Evans er tileinkað rapparanum Christopher „Notorious B.I.G.“ Wallace, sem var myrtur fyrr það sama ár. Á Ísland var „I'll Be Missing You“ vinsælasta lag ársins 1997.

Combs átti stóran þátt í vinsældum Walace sem gaf út plötu hans, Ready to Die, en það er ein vinsælasta breiðskífa hipphopp-sögunnar.

Reyndar hafa sumir, m.a. rapparinn 50 Cent, haldið því fram að Combs hafi haft vitneskju um það hver hafi orðið Wallace að bana árið 1997. 50 Cent er yfirlýstur erkióvinur Combs en hann er búinn að selja Netflix réttinn að heimildarþáttum sem hann hyggst láta gera um Diddy.

„Hvít partí“ í nýju ljósi?

Veldi rapparans afmarkast samt ekki aðeins við tónlist, heldur hefur hann einnig verið andlit vodkamerkisins Cîroc (og átt hlut í vörumerkinu) og selt föt og ilmvötn úr fatalínunni Sean John, sem hann nefnir í höfuðið á sjálfum sér.

Þar til nýlega voru frægustu veislurnar sem Combs hélt kölluð „Hvítu partíin“, þar sem skylda var að mæta í hvítum fötum.

Þau teiti sótti fjöldi frægra manna, svo sem rithöfundurinn Salman Rushdie og jafnvel Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. Þangað mættu einnig Kardashian-fjölskyldan, Leonardo DiCaprio, Jay-Z, Beyoncé o.fl.

Í augum hipphopp-aðdáenda hafa þessar veislur táknað einhvers konar hækkun á hipphopp-menningu frá iðrum undirheimanna og upp í hæstu hæðir bandarískrar elítu.

Kannski munum við þurfa að líta þessar veislur í nýju ljósi, eða hvað?

Diddy er sakaður um að hafa haldið kynlífsveislur sem hann …
Diddy er sakaður um að hafa haldið kynlífsveislur sem hann kallaði „freak offs“. Þangað lét hann fljúga með kynlífsverkafólk hvaðanæva til að skemmta sér. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert