Stjórnvöld í Líbanon lýstu því yfir fyrr í kvöld að 14 séu látnir og og rúmlega 450 særðir eftir að talstöðvar og önnur þráðlaus tæki liðsmanna Hisbollah-samtakanna sprungu víðsvegar um landið í dag.
Árásin, sem virðist hafa verið vel skipulögð og úthugsuð, var gerð aðeins degi eftir að símboðar Hisbollah-liða sprungu í loft upp með þeim afleiðingum að 12 létu lífið og um það bil 2.800 manns særðust.
Hisbollah-samtökin, sem njóta stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran, hafa lýst því yfir að Ísrael beri ábyrgð á árásunum og hótað hefndum.
Yfirvöld í Ísrael hafa ekki tjáð sig beint um árásirnar en rétt áður en sprengingar gærdagsins urðu gáfu yfirvöld út að þau væru að færa út kvíarnar í stríði sínu við Hamas-samtökin og ætluðu að setja meiri þunga í að berjast gegn bandamönnum Hamas í Hisbollah-samtökunum.
Þá sagði varnamálaráðherra Ísraels, Yoav Gallant, í yfirlýsingu fyrr í dag að „þungamiðja stríðsins væri að færast norðar“ og að nú væri að hefjast nýr áfangi í stríði landsins við Hamas.
Ísraelski blaðamaðurinn Amos Harel sem starfar fyrir dagblaðið Haaretz skrifaði fyrr í dag að eftir sprengingarnar væru „Ísrael og Hisbollah á barmi allsherjarstríðs“.
Þá hefur Abdallah Bou Habib, utanríkisráðherra Líbanons, varaði við því að „skýlaus árásin á fullveldi og öryggi Líbanons“ marki hættulega þróun sem gæti verið merki um upphaf stríðsátaka.
Sprengingarnar í dag og í gær hafa reynt á þolmörk heilbrigðiskerfisins í Líbanon en í samtali við AFP lýsti læknirinn Joelle Khadra því að áverkar væru aðallega á augum og höndum fólks og að margir hafi misst fingur og einhverjir sjónina.
Sérfræðingar telja nær öruggt að sprengiefnum hafi verið komið fyrir í tækjunum sem sprungu áður en þau voru afhent Hisbollah-liðum.
„Þetta voru meira en litíum-rafhlöður sem hafði verið átt við,“ sagði Charles Lister sem starfar hjá Miðausturlandastofnuninni í samtali við AFP.
Þá sagði hann nær öruggt að plastsprengiefnum hafi verið komið fyrir við hlið rafhlaða í tækjunum og að ísraelska njósnastofnunin Mossad hafi komið þar við sögu.
„Mossad hefur komið sér inn í aðfangakeðjuna,“ sagði Lister.
En ríkir óvissa um hvaðan tæki sem sprungu í dag voru keypt en New York Times hefur greint frá því að símboðarnir sem sprungu í gær hafi verið frá frá taívanska fyrirtækinu Gold Apollo.
Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa þó reynt að fjarlægja sig frá árásunum og benda á að símboðarnir eru framleiddir af austuríska fyrirtækinu BAC Consulting KFT.
Talsmaður austurískra yfirvalda hefur sagt að fyrirtækið sé ekki með neina starfsemi í Austurríki.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun koma saman á föstudag til að ræða sprengjuárásirnar en mikilla áhyggja gætir um stöðu mála innan alþjóðasamfélagsins.
Frá því að stríð Ísraels og Hamas hófst í október hafa skotárásir milli Hisbollah-liða og Ísraelshers átt sér stað nær daglega við landamæri Líbanon og Ísraels.
Yfir hundrað vígamenn Hisbollah hafa látið lífið í átökunum og tugir Ísraelsmanna.
Volker Turk, yfirmaður mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, hefur sagt að árásin í gær hafi átt sér stað á „mjög viðkvæmum tíma“ og að sprengingarnar hafi verið „átakanlegar“ og áhrif þeirra á almenna borgara „óviðunandi“.
Þá hefur Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hvatt ríkisstjórnir til að „beita ekki borgaralegum hlutum sem vopnum“.
Að sögn heimildamanna AFP munu háttsettir erindrekar frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu hittast í París á morgun til að ræða vaxandi spennu í Miðausturlöndum áður en fundur Öryggisráðsins á sér stað á föstudaginn.