Konur álitnar annars flokks borgarar

Agnès Callamard, framkvæmdastjóri Amnesty International, segir samtökin beita sér fyrir …
Agnès Callamard, framkvæmdastjóri Amnesty International, segir samtökin beita sér fyrir að kynjaaðskilnaðarstefna verði viðurkennd sem brot á alþjóðalögum. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson/AFP

„Réttindi kvenna og stúlkna hafa átt undir högg að sækja frá upphafi mannkyns. Samt eigum við ekki hugtök til að lýsa því þegar konur og stúlkur eru svo kúgaðar að það er kerfisbundið.“

Þetta segir Agnès Callamard, framkvæmdastjóri Amnesty International, í samtali við blaðamann mbl.is. Hún segir eins konar kynjastríð eiga sér stað víða um heiminn.

Það stríð sé oftar en ekki fjármagnað af alþjóðlegum öflum, gjarnan trúarhópum á borð við bandarískar kirkjur, sem knýi fram stríð gegn réttindum kvenna og hinsegin fólks.

Konur mótmæla fyrir utan þinghúsið í Bandaríkjunum er rétturinn til …
Konur mótmæla fyrir utan þinghúsið í Bandaríkjunum er rétturinn til þungunarrofs var fjarlægður úr stjórnarskrá. AFP

Vilja gera konur undirgefnar

Hún segir misrétti og ofbeldi gegn konum efst á lista hjá samtökunum yfir mannréttindabrot sem þau beiti sér gegn.

Rétturinn til þungunarrofs sé í miklum forgangi hjá Amnesty International enda sé það áþreifanlegt og áberandi málefni, sem snúist um réttinn til að eiga og ráða yfir eigin líkama.

Allar tilraunir til að svipta konur því valdi sé tilraun til að endurheimta vald yfir konum og stúlkum og gera þær undirgefnar.

Agnès segir vanta hugtök til að lýsa kúgun kvenna sem …
Agnès segir vanta hugtök til að lýsa kúgun kvenna sem hafi viðgengist frá upphafi mannkyns. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnunartæki einræðisstjórna

„Kvenfyrirlitning er stjórnunartæki einræðisstjórna,“ segir Callamard og bætir við að iðulega gangi einræðisstjórnir hart að flóttafólki, innflytjendum, konum og stúlkum.

„Þær reyna yfirleitt að snúa við öllum þeim árangri sem hefur náðst á undanförnum 30 til 40 árum.“

Hún segir Íran og Afganistan sumar verstu birtingarmyndir valdbeitingar einræðisstjórna gegn konum og kvenréttindum.

Kynjaaðskilnaðarstefna verði viðurkennd sem brot

„Það er ekkert nýtt en það hefur núna hlotið nafn og kallast kynjaaðskilnaðarstefna (e. gender apartheid),“ segir Callamard og bætir við að brýnt sé að viðurkenna hugtakið sem lýsi kerfisbundnu ofbeldi gegn konum og stúlkum þar sem þær séu álitnar annars flokks borgarar.

„Við verðum að viðurkenna þegar alþjóðalög þurfa að þróast og þess vegna hvetur og krefst Amnesty International þess að kynjaaðskilnaðarstefna verði viðurkennd sem brot á alþjóðalögum.“

Hún nefnir sem dæmi að það hafi tekið dágóðan tíma að fá alþjóðasamfélagið sem og mannúðarsamfélagið til að viðurkenna nauðgun sem pyntingaraðferð. Það hafi tekið femínista langan tíma að breyta viðhorfum margra sem álitu nauðgun snúast um nautn en ekki völd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert