„Frá því að ég steig fæti inn í þennan dómssal hefur mér fundist ég vera niðurlægð.“
Hin franska Gisele Pelicot lét þessi orð falla í dómsal í dag en hún er fyrrverandi eiginkona Dominique Pelicot, sem er sakaður um að byrla eiginkonu sinni slævandi lyf svo hann og aðrir gætu nauðgað henni.
Hinn 71 árs Dominique og 50 aðrir karlmenn hafa þar verið ákærðir fyrir að nauðga Gisele. Dominique viðurkenndi í gær að hann hefði í tæpan áratug byrlað Gisele ólyfjan reglulega svo að hann og tugir annarra manna gæti nauðgað henni.
„Það er verið að kalla mig alkóhólista, og einhverja sem verður svo ölvuð að ég gerist jafnvel samverkamaður herra Pelicots,“ bætti hún við.
Dominique skjalfesti ofbeldið oft á myndböndum en ofbeldið fór að mestu fram á heimili þeirra í Mazan í Suður-Frakklandi.
„Ég var í dauðadái og myndböndin sem verða sýnd munu sanna það,“ sagði hún. „Ég gaf aldrei, ekki einu sinni, herra Pelicot eða hinum mönnunum samþykki.“
Hún nefndi að lögmennirnir gæfu í skyn að hún væri „seki aðilinn og þessir 50 menn fórnarlömb“. Réttarhöldin fara fram í borginni Avignon.
„Ég er nauðgari eins og aðrir í þessu herbergi,“ sagði Dominique fyrir dómi í gær og vísaði til hinna 50 sakborninga í málinu – sem allir eru menn sem hann fann á netinu.
Gisele Pelicot, sem skildi við Dominique í ágúst, gerði sjálf kröfu um að réttarhöldin yrðu opin.
Í vitnisburði sínum nefndi Gisele ummæli Guillaume De Palma verjanda sem sagði í síðustu viku að „það er til nauðgun, og svo er til nauðgun“.
Þetta sagði hann til að reyna að renna stoðum undir framburð þeirra sakborninga sem halda því fram að þeir hefðu gert ráð fyrir því að þeir væru aðeins að taka þátt í lauslátum kynlífsleik hjónanna.
„Nei, það eru ekki mismunandi gerðir af nauðgun,“ sagði Gisele.
„Nauðgun er nauðgun.“