Saka Ísraela um fjöldamorð

Líbanskir hermenn að störfum í Beirút, höfuðborg Líbanons, eftir sprengingarnar …
Líbanskir hermenn að störfum í Beirút, höfuðborg Líbanons, eftir sprengingarnar í gær. AFP/Anwar Amro

Írönsk stjórnvöld saka Ísraela um fjöldamorð eftir að símboðar í eigu liðsmanna Hisbollah-samtakanna í Líbanon sprungu með þeim afleiðingum að níu manns létust og næstum þrjú þúsund til viðbótar særðust.

Nasser Kanani, talsmaður utanríkisráðuneytis Írans, sagðist í yfirlýsingu „fordæma hryðjuverk stjórnar síonista…sem væru fjöldamorð“.

Sjúkrabíll á ferðinni í Beirút í gær.
Sjúkrabíll á ferðinni í Beirút í gær. AFP/Anwar Amro

Af þeim 2.800 manns sem særðust í árásinni eru yfir 200 þungt haldnir, að sögn heilbrigðisráðherra Líbanons, Firass Abiad.

Hisbollah segja Ísraela hafa framið verknaðinn en þeir hafa aftur á móti ekkert tjáð sig um árásina.

Á meðal þeirra sem særðust var sendiherra Írans í Líbanon, Mojtaba Amani. Íranskir fjölmiðlar segja hann hafa meiðst á höndum og andliti. Ríkisfjölmiðill sagði meiðslin þó hafa verið lítil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert