Skotum hleypt af við skóla í Ósló

Skotum var hleypt af við barnaskóla í Ósló.
Skotum var hleypt af við barnaskóla í Ósló. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Vopnuð lögregla í Ósló í Noregi er með mikinn viðbúnað við Lindeskolen, barnaskóla í Groruddalen, eftir að skotum var hleypt af við skólann nú fyrir skömmu.

Hefur skólabyggingunni verið læst með nemendur og starfsfólk innandyra á meðan lögregla leitar í nágrenni skólans að árásarmanni eða -mönnum og hugsanlegum fórnarlömbum.

Uppfært klukkan 15:06:

„Við óttumst að hér sé einhver skaðaður en höfum engan fundið enn sem komið er,“ segir Sven Martin Ege, aðgerðastjóri lögreglu á vettvangi, í samtali við norska dagblaðið VG en blaðið hefur enn fremur náð að hafa samband við nemendur í skólanum sem kveðast með böggum hildar og óttist að vinir í öðrum bekkjum hafi hugsanlega meiðst.

Tveir handteknir

Síðustu fréttir herma að tveir hafi verið handteknir, þetta segir Anders Rønning varðstjóri við VG rétt í þessu. Staðfestir hann enn fremur að skotunum hafi verið hleypt af á lóð skólans og þar hafi lögregla fundið tóm skothylki.

Uppfært klukkan 15:24:

„Lögregla lítur það mjög alvarlegum augum að skotum sé hleypt af við barnaskóla,“ segir Rønning enn fremur, en samstarfsmaður hans, Ege aðgerðastjóri, segir að lögregla óski eftir að ná sambandi við þann sem hugsanlega varð fyrir skoti eða skotum, fjöldi vitna hafi verið að atburðinum á svo fjölmennum vinnustað sem barnaskóli er.

Leitar lögregla dyrum og dyngjum með hunda og þyrlu sér til fulltingis auk þess sem tugir lögreglumanna eru á ferð í nágrenninu.

Þekkir mun á flugeldum og skothvellum

Nemendur við Linderud-skólann eru tæplega 500 auk þess sem þar starfa um það bil eitt hundrað kennarar og annað starfslið.

„Ég heyrði fjóra eða fimm skothvelli á skólalóðinni. Ég er frá Írak og hef verið þar í stríði, ég þekki muninn á flugeldasprengingum og skothvellum,“ segir Arian Abbas við VG, faðir tveggja barna í skólanum.

VG

NRK

TV2

Aftenposten

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert