Fimm konur saka Al Fayed um nauðgun

Mohamed Al Fayed.
Mohamed Al Fayed. AFP

Fimm konur segja að Mohamed Al Fayed, fyrrverandi eigandi Harrods, hafi nauðgað þeim þegar þær voru starfsmenn verslunar hans í Lundúnum.

BBC segist hafa heyrt vitnisburð yfir 20 kvenna sem störfuðu í versluninni sem segja að milljarðamæringurinn, sem lést 94 ára gamall í fyrra, hafi beitt þær kynferðislegu ofbeldi, þar á meðal nauðgun.

Í nýrri heimildarmynd og hlaðvarpi eru lagðar fram sannanir um að á meðan Fayed átti Harrods hafi aðrir starfsmenn verslunarinnar ekkert gert til að grípa inn í heldur tóku þeir þátt í að hylma yfir ásakanir um kynferðisofbeldi.

Harrods í Lundúnum.
Harrods í Lundúnum. mbl.is/Wikipedia

Núverandi eigendur Harrods segja ásakanirnar vera hryllilegar og að verslunin hafi brugðist fórnarlömbunum. Biðjast þeir innilega afsökunar á því.

Spillingarvefur 

„Köngulóarvefur spillingar og misnotkunar í þessu fyrirtæki var ótrúlegur og afar myrkur,“ sagði lögmaðurinn Bruce Drummond, sem er hluti af lögmannateyminu sem starfar fyrir margar kvennanna.

„Ég lét vita af því að ég vildi ekki að þetta gerðist. Ég veitti ekki samþykki mitt. Ég vildi bara að þessu myndi ljúka,” sagði ein kvennanna, sem sagði að Fayed hefði nauðgað henni í íbúð hennar í Park Lane í Lundúnum.

Önnur kona segir að Al Fayed hafi nauðgað henni á heimili hennar í Mayfair í Lundúnum þegar hún var á unglingsaldri.

„Mohamed Al Fayed var skrímsli, hann var kynferðislegt rándýr með enga siðferðiskennd,“ sagði hún og bætti við að allt starfsfólk Harrods hefði verið „leikföng“ hans.

„Við vorum öll svo hrædd. Hann ýtti undir ótta. Ef hann sagði „hoppið“ þá spurðu starfsmenn „hversu hátt?“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert