Lögreglan í Ósló hefur fundið skotvopn sem hún telur að geti tengst skotum sem hleypt var af við Linderud-grunnskólann í Groruddalen í austurhluta borgarinnar í gær og mbl.is greindi frá, en mikil skelfing greip um sig í þessum stóra skóla, sem hýsir tæplega 500 nemendur, og hafði lögregla uppi mikinn viðbúnað á vettvangi og leitaði með aðstoð þyrlu og hunda að hugsanlegu fórnarlambi skotárásar og árásarmönnum.
Lögregla verst allra frétta af því hvers kyns vopn hafi fundist en í gær handtók hún þrjá menn á þrítugsaldri sem taldir eru tengjast málinu sem lögregla flokkar undir gróflega ógnun með skotvopnum.
Hefur hinum handteknu verið veitt formleg staða grunaðra og sæta þeir yfirheyrslum í dag en lögregla reiknar með að farið verði fram á gæsluvarðhaldsúrskurð yfir þeim.
Mennirnir hafa komið við sögu lögreglu áður og telja rannsakendur hennar atburðinn í gær ekki hafa verið tilviljanakenndan heldur hafi fleiri átt þar hlut að máli og um einhvers konar uppgjör verið að ræða.