Hökkuðu Trump og sendu Biden gögnin

Trump og Ali Khamenei, æðstiklerkur Írans.
Trump og Ali Khamenei, æðstiklerkur Írans. Samsett mynd/AFP

Leyniþjónustustofnanir í Bandaríkjunum segja að íranskir netþrjótar hafi komist yfir gögn innan kosningabaráttu Donalds Trumps. Íranir hafi svo sent kosningateymi Joes Bidens, Bandaríkjaforseta og þáverandi forsetaframbjóðanda demókrata, gögnin.

Bandarískar leyniþjónustu- og löggæslustofnanir sögðu að tölvuþrjótarnir hefðu „sent óumbeðna tölvupósta til einstaklinga sem þá tengdust kosningabaráttu Bidens forseta sem innihéldu útdrátt sem tekinn var úr stolnu, óopinberu efni úr kosningabaráttu Trumps, fyrrverandi forseta“.

Fram kom að enginn úr kosningateymi Bidens hefði svarað tölvupóstunum.

Reynt að hafa áhrif á komandi kosningar

Leyniþjónustustofnanir í Bandaríkjunum greindu upphaflega frá því í ágúst að íranskir netþrjótar hefðu hakkað kosningabaráttu Trumps.

Sögðu þeir að klerkastjórnin í Íran væri að reyna hafa áhrif á komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum.

Í kjölfarið stigu að minnsta kosti þrír fréttamiðlar fram og sögðu að Íranir hefðu lekið gögnunum til sín, en fjölmiðlarnir ákváðu að birta ekki efnið. 

Íranir hafna þessum ásökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert