Atli Steinn Guðmundsson
„Þeir sem festa sig í sessi hérna niður frá eru í betri stöðu til að hafa töglin og hagldirnar,“ segir Stefan Sintéus við sænska ríkisútvarpið SVT en hann er fyrrverandi lögreglustjóri í Malmö og nú stjórnandi lögregluaðgerðarinnar Frigg sem beinist gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
Ofbeldi með banvænum afleiðingum hefur færst í aukana í Malmö og á Skáni og telur lögregla ástandið sprottið af því að stærri glæpagengi frá höfuðborginni Stokkhólmi hafi fært út kvíarnar og hafið starfsemi á framangreindum stöðum sunnan hennar.
Frá júlílokum hafa fleiri skotárásir og sprengjutilræði átt sér stað í Malmö og á Skáni og létust fórnarlömb skotárása í Skurup og Rosengård í Malmö með stuttu millibili.
„Afbrotahópar sækjast eftir því að koma sér fyrir í Suður-Svíþjóð vegna nálægðarinnar við meginlandið. Þeir eiga auðveldara með að starfa héðan,“ segir Sintéus af þessum flutningum gengjanna og bendir á að allur suðurhluti landsins sé ein stór vörumóttaka fyrir smyglvarning. Sá sem ráði lögum og lofum þar sé í óskastöðu.
Hann segir lögreglu glöggt sjá þróun í ofbeldismálum á svæðinu upp á síðkastið sem bendi til nýrra manna og nýrrar starfsemi. Ofbeldið hafi orðið grófara og árásarmennirnir yngri en áður tíðkaðist.
SVT-II (bylgja ofbeldis í Malmö)