„Það voru fyrstu stóru mistökin mín“

Gisele Pelicot yfirgefur réttinn í Avignon í fyrradag í fylgd …
Gisele Pelicot yfirgefur réttinn í Avignon í fyrradag í fylgd með lögmanni sínum, Stephane Babonneau. AFP/Christophe Simon

„Þar sem ég fékk aldrei samþykki Pelicot á ég ekki annars úrkosti en að sætta mig við staðreyndir,“ sagði Lionel R., einn fimmtíu manna sem ákærðir eru í Frakklandi fyrir hópnauðgun 2. desember 2018 í máli sem vakið hefur ótta og óbeit með frönsku þjóðinni.

Þáverandi eiginmaður fórnarlambsins, Gisele Pelicot, er einn hinna ákærðu og er gefið að sök að hafa byrlað konu sinni ólyfjan svo svefnhöfgi seig á hana áður en hann bauð fjölda manna að notfæra sér ástand hennar.

Áðurnefndur Lionel R. kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir ástandi fórnarlambsins en taldi sig vera þátttakanda í einhvers konar kynlífsleik, en eiginmaðurinn, Dominique Pelicot, hafði boðið til gjörningsins á lokaðri vefsíðu fólks sem aðhyllist valkvæðan lífsstíl á kynferðissviðinu.

Eiginmaðurinn mjög ýtinn

„Eitthvað var rætt um lyf og minnst var á að hún hefði tekið eitthvað inn en stundum á að hann hefði gefið henni eitthvað,“ sagði Lionel R. þegar dómari spurði hann út í málsatvik. „Ég spurði sjálfan mig ekkert of margra spurninga,“ sagði hann. „Ég hugsaði aldrei út í að hún væri ef til vill ekki þátttakandi í leiknum. Það voru fyrstu stóru mistökin mín,“ hélt hann áfram.

Hann kvað eiginmanninn hafa verið mjög ýtinn þegar að því kom að nauðga konunni. „Svo sagði hann mér að yfirgefa herbergið og þá áttaði ég mig á því að eitthvað var ekki eins og það átti að vera,“ sagði ákærði.

Sem fyrr segir hefur málið vakið mikinn óhug meðal Frakka, ekki síst vegna þess að margir þátttakendanna voru „venjulegir menn“, eins og AFP-fréttastofan orðar það, þar á meðal slökkviliðsmaður, hjúkrunarfræðingur og blaðamaður, margir þeirra fjölskyldumenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert